Svefnrannsóknarfyrirtækið Nox Medical var valið upplýsingatæknifyrirtæki ársins á UT-messunni um helgina fyrir einstakan árangur í upplýsingatækni.

Skýrslutæknifélag Íslands, SKÝ, veitir UT-verðlaunin fyrirtækjum sem unnið hafa sérstaklega gott starf á árinu 2018 og náð góðum árangri með einum eða öðrum hætti, á innlendum sem erlendum vettvangi með upplýsingatækni að leiðaljósi.

„Fá íslensk tæknifyrirtæki hafa fengið jafn mikla umfjöllun fyrir góðan árangur á UT sviðinu en Nox Medical. Nox medical hefur skapað sér sérstöðu á sviði svefnrannsókna í heiminum. Nox medical hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir rannsóknir sínar og verkefni,“ segir í umsögn dómnefndar SKÝ.

Fjármálafyrirtækið Meniga og tæknifyrirtækið Marel voru einnig tilnefnd til UT-verðlaunanna. Þetta er í fyrsta sinn sem SKÝ veitir fyrirtæki verðlaun fyrir árangur í upplýsingatækni.