Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir markmið um innleiðingar á EES tilskipunum ekki í samræmi við markmið og staðan sé því langt frá því sem hún eigi að vera.

Í morgun birtust fréttir um að Ísland stæði sig verst allra EES ríkjanna í innleiðingum tilskipana.

Hvorugt markmiðanna hefur náðst

Evrópustefna ríkisstjórnarinnar frá í mars 2014 hafi innihaldið þau tvö tölulegu markmið varðandi innleiðinug nýrra EES reglna, að annars vegar átti að vera búið að koma innleiðingarhallanum undir 1% á fyrri hluta ársins 2015. Hins vegar átti ekkert mál að vera fyrir EFTA-dómstólnum vegna misbresta við innleiðingu, en í dag eru þau fjögur.

Hvorugt markmiðanna hefur náðst þó talsverður árangur hafi náðst, en innleiðingarhallinn var 3,1% þegar markmiðið var sett sett, en er í dag 1,2%.

„Í báðum tilvikum er staðan hins vegar enn langt frá því að vera eins og hún á að vera og er ekki í samræmi við þau markmið sem voru sett fyrir rúmum tveimur árum. Stefnan er góð, en það þarf augljóslega enn að setja meiri fjármuni og mannskap til að koma henni í framkvæmd,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda

„Það eru út af fyrir sig ánægjulegar fréttir að það skuli saxast á innleiðingarhallann og málum fyrir dómstólnum fækka.“

Réttindi eigi að vera þau sömu

Ólafur segir það mikið hagsmunamál íslenskra fyrirtækja að sömu reglur gildi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.

„Það er skylda stjórnvalda að sjá til þess að umhverfið sé einsleitt og réttindi fólks og fyrirtækja þau sömu hér og í öðrum löndum EES.“