Mögulegt er að lagaákvæði sem skyldar íslenska launþega til að eiga aðild að ákveðnum lífeyrissjóðum brjóti í bága gegn ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um félagafrelsi.

Þetta er mat Gunnars Þórs Ásgeirssonar, lögfræðings á eftirlitssviði Fjármálaeftirlitsins. Í grein sinni „Á skylduaðild að ákveðnum lífeyrissjóði rétt á sér?“ sem birtist í vefriti Fjármálaeftirlitsins, veltir Gunnar því upp hvort dómur frá 1996, sem komst að þeirri niðurstöðu að lögmætt væri að skylda launafólk til aðildar að tilteknum lífeyrissjóði, eigi enn rétt á sér. Réttarþróun hafi veitt neikvæðu félagafrelsi ríkari vernd með tímanum.

Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Þórey Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, að þrátt fyrir að rétturinn hafi þróast í átt að auknu félagafrelsi, þá sé ómögulegt að fullyrða um hvernig íslenskir dómstólar myndu taka á svona máli í dag.