Norska ríkisstjórnin hefur sett í gang vinnu við að koma í framkvæmd skylduaðild að lífeyrissjóðum. Gert er ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir nái til 600 þúsund launþega, en norska Stórþingið samþykkti þann 26. maí s.l. nýja löggjöf um sjóðina , sem taka mun gildi um næstu áramót.

Um er að ræða lífeyrissjóði á fyrirtækjagrundvelli og er haft eftir Per-Kristian Foss, fjármálaráðherra, að ætlast sé til að fyrirtækin komi á lífeyrissjóðakerfi fyrir árslok 2006, sem a.m.k. bjóði uppá lágmarkstryggingavernd og taki gildi eigi síðar en 1. júlí á næsta ár. Lífeyrissjóðirnir geta að uppbyggingu verið hvort sem er fastréttindasjóðir eða fastiðgjaldasjóðir. Hinu nýju lífeyrissjóðir munu greiða eftirlaun til viðbótar ellilífeyrisgreiðslum almannatrygginga.

Hin nýju lög ná ekki til fyrirtækja sem nú þegar starfrækja lífeyrissjóði samkvæmt sérlögum eða samkvæmt kjarasamningum við opinbera starfsmenn. Stjórnunarkostnaðurinn af nýju sjóðunum verður borinn uppi af viðkomandi fyrirtækjum, auk þeirra iðgjalda sem þau munu greiða til sjóðanna. Þá er gert ráð fyrir því að inn í lífeyrisiðgjaldinu í þessum nýju sjóðum með skylduaðild verði sérstakt framlag vegna framreiknings iðgjalda, ef sjóðfélagi verður fyrir orkutapi, áður en til til ellilífeyristöku kemur.

Gert er ráð fyrir því að árleg heildariðgjöld fyrirtækjanna ásamt stjórnunarkostnaði vegna hinna nýju lífeyrissjóða verði u.þ.b. 3,3, milljarðar norskra króna eða um 31 milljarðar íslenskra króna.

Byggt á frétt á heimasíðu Landssamtaka lífeyrissjóða.