*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 7. janúar 2017 12:02

Skyndibitakeðjur mala gull

Þrjár íslenskar skyndibitakeðjur greiddu hluthöfum sínum í fyrra samanlagt um milljarð í arð.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Íslenskir neytendur eru sólgnir í skyndibita. Nýlegar tölur Meniga sýna m.a. að ungir Íslendingar borða skyndibita eða annan tilbúinn mat oftar en þrisvar í viku og eyða á bilinu 26 þúsund krónum á mánuði í slíkt fæði. Það kemur því ef til vill ekki á óvart að umfangsmiklar skyndibitakeðjur á landinu hafa skilað góðum hagnaði að undanförnu og nýta núverandi uppsveiflu til að auka umsvif sín enn frekar.

Með það að markmiði að gera nánari grein fyrir þróun markaðsins skoðaði Viðskiptablaðið þrjú félög sem hafa verið umsvifamikil á þessu sviði veitingageirans: FoodCo,sem heldur utan um starfsemi sex þekktra skyndibitastaða, Dominos og KFC. Samanlagt greiddu þessar keðjur hluthöfum sínum um milljarð í arð á síðasta ári. 

750 milljónir í arð

Fyrirtækið FoodCo hefur löngum verið umsvifamikið á íslenskum veitingamarkaði og rekur um þessar mundir sex þekkt vörumerki hér á landi: Eldsmiðjuna, Saffran, American Style, Pítuna, Aktu Taktu og Roadhouse. Samtals rekur fyrirtækið 20 veitingastaði undir merkjum þessara veitingastaða. Töluverður uppgangur hefur verið hjá fyrirtækinu að undanförnu og sýnir ársreikningur félagsins að eigendur þess greiddu sér 750 milljónir króna í arð í kjölfar rekstrarársins 2015. Á sama tíma skilaði fyrirtækið 135 milljóna króna hagnaði. Vörursala félagsins hefur aukist jafnt undanfarin ár en þannig nam hún til dæmis 2.665 milljónum króna árið 2010 en 3.557 milljónum árið 2015, eða sem nemur 34% aukningu. 

Hluthafar fyrirtækisins eru Þórarinn Ragnarsson með 42,5% eignarhlut, Eldheimar ehf., sem er í eigu Bjarna Stefáns Gunnarssonar með 15% eignarhlut og félagið Jöklaborg ehf. sem á 42,5% hlut. Jöklaborg er alfarið í eigu Jóhanns Arnar Þórarinssonar en hann er jafnframt forstjóri fyrirtækisins.

30-40% söluaukning

Jóhann Örn Þórarinsson, forstjóri FoodCo segir mjög góðan gang í fyrirtækinu og að menn finni fyrir mikilli aukningu í sölu, þá sérstaklega á þeim stöðum sem eru í návígi við ferðamenn landsins. „Söluaukningin hefur verið mjög breytileg eftir stöðum en niðrí bæ hefur hún verið allt frá 10% og upp í 30-40%,“ segir Jóhann. Á árunum 2014-2015 fjölgaði stöðugildum fyrirtækisins úr 468 í 505 og á síðasta ári opnaði fyrirtækið svo m.a. tvo nýja Eldsmiðju-veitingastaði. Jóhann segir mikið launaskrið síðastliðin tvö ár hafa haft töluverð áhrif á afkomu fyrirtækisins enda hafi launahækkanirnar verið mjög snarpar. Hann segist þó líta framtíðina björtum augum. „Við opnuðum tvo nýja veitingastaði á síðasta ári og horfum enn til frekari vaxtar. Þá erum við sífellt vakandi fyrir nýjum sóknarfærum á markaðnum og útilokum ekki að bæta við okkur fleiri vörumerkjum. Það ríkir almennt bjartsýni á markaðnum og með enn frekari fjölgun ferðamanna myndast víða frekari sóknarfæri. Það eru því nokkuð spennandi tímar fram undan.“

Í Viðskiptablaðinu láðist að fjalla um rekstrartekjur Foodco á sama hátt og gert var hjá hinum félögunu og biðjumst við velvirðingar á því.  

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.