Frakkar hafa í fyrsta skipti náð þeim áfanga að sala á skyndibitamat frá stórum keðjum er meirihluti allrar veitingahúsasölu í landinu. Kemur þetta fram í nýlegri könnun sem Gira Conseil, ráðgjafarfyrirtæki í matvælageiranum, gerir árlega. Sala á skyndibitamat er nú um 54% af allri veitingahúsasölu í Frakklandi.

Undanfarin ár hefur hlutur skyndibitakeðja í franska veitingahúsageiranum farið vaxandi, en þetta er í fyrsta sinn sem hann hefur farið yfir 50%. Á síðasta ári einu saman hefur neysla á slíkum mat aukist um ein 14%.

Þessi þróun rímar ekki við þá ímynd sem Frakkar og frönsk matarmenning hafa, en í frétt NPR um málið segir að afstaða fransks almennings til matar og veitingahúsa hafi tekið miklum breytingum undanfarin ár. Þá skipti ekki síður máli að hádegisverðarhlé fransks launafólks hefur skroppið mjög saman undanfarin ár. Árið 1975 var hádegisverðarhlé að meðaltali 88 mínútur, en í dag er það aðeins 22 mínútur. Fólk hefur því ekki tíma til mikils annars en að hlaupa út og kaupa sér hamborgara.