Boeing 757 flugvél Icelandair í áætlunarflugi á leið til Osló lenti í Bergen á vesturströnd Noregs klukkan 10 í morgun vegna skyndiverkfalls flugumferðarstjóra í Noregi. Rúmlega eitt hundrað farþegar voru með vélinni. Samkvæmt áætlun átti flugvélin að snúa til baka frá Osló síðdegis. Ekki er vitað hvenær flugumferðarstjórar hefja störf á ný, en samningafundir standa yfir.

Flogið verður frá Bergen til Osló eins fljótt og unnt er eftir að opnað verður fyrir flugumferð og síðan frá Osló til Íslands með þá 150 farþega sem bíða þar.