Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fráfarandi formaður Samfylkingarinnar, segist skynja ríkan áhuga hjá utanríkisráðherrum helstu ríkja Evrópusambandsins um aðild Íslendinga að ESB.

Þetta kom fram í upphafsræðu hennar á landsfundi flokksins í dag.

„Ég hef á undanförnum mánuðum rætt stöðu Íslands ítarlega í einkasamtölum við utanríkisráðherra helstu ríkja Evrópusambandsins og hef skynjað ríkan áhuga á aðild okkar og skilning á okkar stöðu. Þrátt fyrir allt þá er lag núna," sagði hún og hlaut fyrir lófaklapp fundargesta.

Ingibjörg Sólrún sagði að ekki verði lengur undan því vikist að marka nýja peningamálastefnu með samningum við Evrópusambandið. Strax í upphafi aðildarviðræðna væri hægt að leita samvinnu við ESB um aðgerðir til að auðvelda afnám gjaldeyrishafta og styðja við verðmyndun krónunnar.