*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Fólk 15. nóvember 2020 19:01

Skynjarar stækkuðu húsið

Eva Sigurbjörg Þorkelsdóttir, nýr stjórnarmaður hjá Deloitte í Danmörku, á sér uppáhaldsstað í vínhéruðum Ítalíu.

Höskuldur Marselíusarson
Annar tveggja fulltrúa starfsmanna í stjórn Deloitte í Danmörku, Eva Sigurbjörg Þorkelsdóttir, vinnur við að finna tæknilausnir en nýtur þess að ferðast, smakka vín, lesa góðar bækur og fara á fyrirlestra.
Aðsend mynd

„Við erum tvær sem eru kosnar í stjórn Deloitte í Danmörku af starfsmönnum, þar sem við sitjum ásamt fimm öðrum. Þetta eru hefðbundin stjórnarstörf en við erum með áherslu á að koma með góðar hugmyndir til þess að gera þetta að enn betri vinnustað fyrir starfsmenn svo vinnukúltúrinn endurspegli jafnrétti, fjölbreytni og þátttöku allra," segir Eva Sigurbjörg Þorkelsdóttir, sérfræðingur í stafrænni þróun hjá Deloitte í Danmörku.

„Við kærastinn minn, Magnús Andri Pétursson, fluttum hingað út í lok árs 2017, þegar hann fór í meistaranám í fjármálum í CBS, sem hann er að klára núna, en fram að því hafði ég verið með marga danska kúnna og flogið á milli. Mitt hlutverk var að gera betrumbætur á fjármálaferlum fyrirtækja og nýta til þess nýjar sjálfvirknilausnir sem auðvelda vinnu fjármálastjóranna. Síðan fékk ég enn meiri áhuga á tæknilegum lausnum þegar ég var að vinna með einu fyrirtæki sem var leiðandi í tækniþróun."

Því fór það svo að árið 2018 fór Eva Sigurbjörg í teymi sérfræðinga í stafrænni þróun hjá Deloitte í Danmörku. „Mér hefur alltaf fundist ótrúlega gaman að vinna að umbótaverkefnum og þróa eitthvað nýtt, og með nýrri tækni getum við gert starfsmönnum enn betur kleift að sinna sínu starfi. Við fáum ýmis vandamál upp á borð til okkar til að leysa og held ég utan um samskiptin við stjórnendur fyrirtækja og bæði innanhússérfræðinga okkar í tækni og aðra sérfræðinga," segir Eva Sigurbjörg.

„Við erum að vinna með alls konar skynjara, „internet-of-things", „machine learning", þrívíddarprentara, sjálfvirkni og greindartækni, sem geta boðið upp á alls kyns lausnir. Eitt dæmi var að um tíma virtist sem húsnæði Deloitte í Danmörku væri að verða of lítið því ekki var hægt að finna nein laus fundarherbergi.

Þá tengdum við app við alla skynjarana í fundarherbergjunum þannig að við gerðum aðgengilegt fyrir alla hvort ljós í þeim væru slökkt eða kveikt. Þá kom allt í einu í ljós að húnæðið var nægilega stórt, bara ekki nógu vel nýtt. Nú erum við svo að kenna myndavélunum að þekkja þegar skrifborð er upptekið því við erum með frjálst sætaval í húsinu."

Eva Sigurbjörg er einn af stofnendum Kötlu Nordic, félags íslenskra kvenna í atvinnulífi Norðurlandanna. „Mér finnst langskemmtilegast að lesa bækur og fara á alls kyns áhugaverða fyrirlestra sem eru í boði hérna úti, og setja upp viðburði með Kötlu þegar flottar konur úr íslensku viðskiptalífi koma til Danmerkur.

Síðan ferðumst við kærastinn minn mikið og erum mikið fyrir að fara til Ítalíu þar sem við erum pínu vínáhugafólk. Uppáhaldsstaðurinn okkar er í Vedova þar sem við vorum í lítilli sveitagistingu sem bíður upp á mat úr héraðinu þar sem við gátum keyrt á milli vínekra og fallegra lítilla bæja."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.