Forstjórar þeirra þriggja fasteignafélaga sem skráð eru á markað ræddu stöðu og horfur á markaði með atvinnuhúsnæði í fylgiriti Viðskiptablaðsins um fasteignamarkaðinn sem kom út fyrir helgi. Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, segir meirihluta viðskiptavina félagsins ekki þurft á aðstoð þeirra að halda í faraldrinum.

„Þegar faraldurinn skall á fyrir rúmu ári síðan var óvissan mikil. Ég held að það hafi verið skynsamleg nálgun hjá okkur að draga andann djúpt og læra smám saman að takast á við ástandið eins vel og kostur var. Við frestuðum mikið af leigugreiðslum hjá þeim aðilum sem þurftu á því að halda en mikill meirihluti okkar viðskiptavina hefur ekki þurft á aðstoð að halda, enda hefur faraldurinn haft mjög mismunandi áhrif á markaðinn. Matvöruverslun og önnur verslun, lyfjageirinn, iðnaður og skrifstofur hafa ekki orðið fyrir miklum áhrifum almennt. Ferðaþjónustan, og þar á meðal hótelin og veitingastaðirnir, hefur aftur á móti fundið hressilega fyrir afleiðingum faraldursins," segir Guðjón um stöðu á atvinnuhúsnæðismarkaði.

Efast um fordæmisgildi Fosshótelmáls

Fosshótel Reykjavík var í héraði gert að greiða helming ógreiddrar leigu til leigusala síns, Íþöku ehf., en það sem eftir stóð var látið niður falla vegna þeirra fordæmalausu aðstæðna sem veirufaraldurinn skapaði. Nokkuð hefur verið rætt um hugsanleg áhrif niðurstöðu dómstóla í Fosshótelsmálinu á leigusamninga þeirra, verði niðurstaða í héraði staðfest í Hæstarétti.

„Það bíða margir spenntir eftir niðurstöðu Hæstaréttar, nú þegar það liggur fyrir að þetta mál fari beint þangað. Minn skilningur er sá að málið hafi í sjálfu sér lítið fordæmisgildi þegar upp er staðið. Þarna er í miklum mæli verið að horfa til stöðu þeirra aðila sem deila, það er að segja, hverjar aðstæður aðila eru, fjárhagslegur styrkur, hvernig samkomulag þeir gerðu og á hvaða tíma. Þessa þætti er ómögulegt að heimfæra á aðra samninga, milli annarra aðila og vegna þessa hef ég verið varaður við því að túlka niðurstöðu þessa máls sem fordæmisgefandi," segir Guðjón.

Frábær ár í vændum

Hann telur frábær ár í vændum fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. „Við munum líta um öxl eftir nokkur ár og vonandi sjá þetta covid tímabil sem flökt á því ferðalagi sem hófst löngu fyrir faraldurinn, að gera Ísland að ótrúlega spennandi ferðamannalandi. Ég held að við höfum öll tækifæri í heiminum til að gera þetta vel þannig að ég ber engan kvíðboga fyrir framtíð hótelrekstrar á Íslandi."

Hótelmarkaðinn er lifandi og Guðjón býst við því að töluverðar breytingar verði á þátttakendum á markaðnum eftir faraldurinn. „Það er áhugaverð breyting að verða núna hjá hinu gamalgróna fyrirtæki Icelandair Hotels, sem nú er komið á aðrar hendur en Icelandair Group og það verður spennandi að fylgjast með því ferðalagi. Það eru auðvitað tíðindi líka ef Hótel Saga hverfur af markaði og húsnæðið fer í önnur not. Það fer yfirleitt meira fyrir umræðu um stöðugar byggingar á hótelum, en það má ekki gleyma því að þau eru líka að hætta, eins og gengur og gerist á lifandi markaði."

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaðnum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .