Í gær keypti uppboðsfyrirtækið Ebay netsímafyrirtækið Skype á 4,1 milljarð dollara (265 ma.kr) en þar af eru 1,5 milljarðar árangurstengdir. Svona verðlagning á fyrirtækjum hefur ekki sést síðan í netbólunni en tekjur Skype verða líklegast undir 100 milljónum dollara á þessu ári og óvíst um hagnað. Ebay sjálft er með markaðsvirði upp á 53 milljarða dollara (3.300 ma.kr). Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar er bent á að Skype fór af stað með netsímaþjónustu í lok árs 2003 og er því rétt tveggja ára. Fyrirtækið býður upp á ókeypis símhringingar á milli tölva og ódýr símtöl í venjulega síma. Það hefur náð samtals 54 milljón skráðum notendum sem hringja ókeypis en þar af eru 2 milljón notendur sem greiða fyrir viðbótarþjónustu. "Ljóst er að netfyrirtækin telja mikla möguleika í svona lausnum. Microsoft og Yahoo keyptu nýlega svipuð fyrirtæki og Google er komið með eigin lausn," segir í Morgunkorninu.

"Eftir því sem útbreiðsla Skype og svipaðra lausna eykst munu notendur hringja meira ókeypis í hvern annan. Þetta mun því líklegast hafa áhrif á möguleika símafyrirtækja til að rukka skrefagjöld fyrir símtöl. Þegar hefur eitt símafyrirtæki, E-Plus í Þýskalandi, ákveðið að bjóða 9,8 milljón viðskiptavinum sínum upp á Skype möguleika. Þeir greiða tæplega 3.000 kr. fastagjald á mánuði og geta þá hringt og sent SMS skilaboð ókeypis innan E-Plus kerfisins auk þess sem að fá afnot af Skype. Áhugavert verður að sjá hvernig þróunin verður á Íslandi og hvernig símafyrirtækin hér bregðast við þessari nýju tækni," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.