Fjallað var um skyr í The Early Show, morgunþætti bandarísku CBS sjónvarpsstöðvarinnar, í gærmorgun. Umfjöllunarefnið var „ofurmatur“, þ.e. matur sem stuðlar að heilbrigði og jafnvel langlífi, og var skyr nefnt fyrst af þeim sex vinsælu matartegundum sem til umfjöllunar voru.

Cynthia Cass, þekktur næringarfræðingur vestanhafs, sagði skyr bæði fitulaust og prótínríkara en bæði venjuleg jógúrt og grísk jógúrt. Um var að ræða Siggi's, skyr sem Sigurður Kjartan Hilmarsson, íslenskur athafnamaður, framleiðir í New York-fylki og selur víða um Bandaríkin.

Óhætt er að segja að skyr sé á sigurför um heiminn en nýlega var fjallað í Viðskiptablaðinu um sölu skyrs í Noregi þar sem íslenska jógúrtin, eins og skyr er kallað erlendis, hefur slegið rækilega í gegn.