Útflutningur Mjólkursamsölunnar hefur aukist á skyri og nam söluandvirði útflutning 650 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Um 80% af útfluttu skyri fer til Finnlands en 20% til Bandaríkjanna. Skyrið er framleitt í Noregi samkvæmt sérstöku leyfi og selt þar, í Svíþjóð og í Danmörku. Þá var nýverið skrifað undir samning um framleiðslu á skyri í Japan. Áætlað er að framleiðsluleyfin skili 100 milljónum króna til viðbótar.

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag, að salan til Finnlands sé orðin svo mikil að þangað fari einn gámur í viku. Tollaþaki ársins hefur þegar verið náð og megi reikna með að ofurtollur leggist á skyrið undir lok árs. Tollurinn nemur 50 krónum á hverja dós. Þá segir í blaðinu að skyrdósin er talsvert dýrari á Norðurlöndunum en hér. Í Noregi kosti skyrdósin 300 krónur.

Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Mjólkursamsölunnar, segir í samtali við blaðið að skyr hafi náð fótfestu í Boston og New York í Bandaríkjunum. Flutningskostnaður háir hins vegar útflutningi vestur um haf.