"Ég er hreykinn af þeim árangri sem stjórnendur og starfsfólk Marels náði á árinu 2009, við um margt erfiðar aðstæður,“ sagði Árni Oddur Þórðarson, stjórnarformaður Marel, í ávarpi sínu á aðalfundi Marel sem fram fór í dag. „Fjármálakreppan sem hófst 2008, leiddi til efnahagsniðursveiflu af meiri styrk en við höfum séð í áratugi. Skýr merki eru um að kreppunni sé lokið, iðnframleiðsla fer vaxandi á ný og fjármálamarkaðir hafa tekið við sér að nýju.“

„Marel er í einstakri stöðu til að skapa verðmæti fyrir viðskiptavini sína og hluthafa á næstu árum.  Okkur hefur tekist að gjörbreyta samkeppnismynstrinu á þeim markaði sem Marel starfar á.  Marel er óumdeildur heimsleiðtogi á sínu sviði, með 15% markaðshlutdeild á heimsvísu í þjónustu við kjúklinga-, kjöt- og fiskiðnað með aukinn fókus á áframvinnslu matvæla.“

Þá nefndi Árni Oddur að þau fyrirtæki sem keypt höfðu verið á undanförnum árum hefðu verið samþætt í eitt fyrirtæki á árinu með fjórar meginstoðir – þjónusta við kjöt, kjúkling, fiskiðnað og áframvinnslu.  „Það gaf færi á að hagræða vel í rekstri og lækka kostnaðargrunn félagsins til framtíðar… og í dag er fyrirtækið með meiri fókus og viðbragðsfljótari  að þjónusta ört vaxandi þarfir alþjóðaviðskiptavina.“

Atvinnugrein okkar hefur vaxið síðustu 20 árin umtalsvert hraðar en heimshagvöxtur, sagði Árni Oddur, og er spáð 4-7% vexti til framtíðar ekki síst á nýmörkuðum þar sem Marel treystir sífellt stöðu sína.

„Til að tryggja að verðmyndun hlutabréfa Marels verði traustari og auka enn áhuga erlendra fjárfesta á félaginu stefnum við ótrauð að tvíhliða skráningu hlutabréfanna í evrópskri Kauphöll til viðbótar við þá íslensku.“

Að lokum sagði Árni Oddur að Marel væri staðráðið í ná árangri og settum markmiðum frá og með árinu 2010.