Ávöxtunarkrafa á lengsta íbúðabréfaflokkinn, sem er á gjalddaga árið 2044, er nú 2,40% og krafan á styttri flokka Íbúðalánasjóðs er enn lægri. Vegna þess að lífeyrissjóðunum er skylt að miða við 3,5% raunávöxtunarmarkmið í sínum fjárfestingum er þessi ávöxtunarkrafa lítt aðlaðandi fyrir þá og hafa sjóðirnir því lítið keypt af íbúðabréfum undanfarið.

„Samkvæmt mánaðaryfirlitum Íbúðalánasjóðs og lánasýslunnar keyptu lífeyrissjóðirnir lítið sem ekkert af íbúðabréfum eða ríkisbréfum og ég sé ekki fram á að þeir taki mikinn þátt í þeim markaði fyrr en vaxtastig í landinu hækkar og ávöxtunarkrafan sömuleiðis. Annars er þessi lága raunávöxtunarkrafa afleiðing haftanna, því eignabólur verða til þegar mikið fjármagn eltist við lítið af eignum. Núna loksins erum við byrjuð að sjá nokkuð skýr merki um að bóla sé að myndast á fjármagnsmarkaði vegna gjaldeyrishafta þegar raunávöxtunarkrafan er orðin eins lág og hún er nú,“ segir Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri hjá Gamma.

Nánar er fjallað um stöðu lífeyrissjóðanna í haftaumhverfi í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.