Niðurstöður nýrrar könnunar Gallup fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna skýra viðhorfsbreytingu meðal stjórnenda. Töluvert færri en áður telja aðstæður nú vera góðar í atvinnulífinu og væntingar til næstu sex mánaða eru minni en frá upphafi þessara  mælinga.

Skortur á starfsfólki minnkar stöðugt og því fjölgar mun hægar en undanfarin ár. Stjórnendur búast við 3% verðbólgu á næstu 12 mánuðum sem eru hærri verðbólguvæntingar en  undanfarin ár.

Niðurstöðurnar voru meðal þess sem fjallað var um á hádegisverðarfundi Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands í dag. Yfirskrift fundarins var Samkeppnishæft Ísland?

Frummælendur voru Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Ásta Fjeldsted reið á vaðið á fundinum og fjallaði um mikilvægi þess að aðrir þættir en fjárhagslegir skipti sköpum fyrir samkeppnishæfni. Hún velti meðal annars upp þeim spurningum hvers virði lág glæpatíðni og jafnrétti væri. Þá lagði hún áherslu á mikilvægi þess að hafa skýra sýn í menntamálum til að tryggja áframhaldandi samkeppnishæfni Íslands og að þrátt fyrir að Ísland stæði vel að vígi að mörgu leyti væru skattar enn háir og Ísland ekki efst á blaði þegar horft er til margra mælikvarða samkeppnishæfni.

Hver höndin upp á móti annarri

Bjarni Benediktsson lýsti þeirri skoðun sinni að staðan á vinnumarkaði væri erfið, sérstaklega þar sem hver höndin væri upp á móti annarri. Hann vakti sérstaklega athygli á að svo til allir hópar launþega, hvar í launastiganum sem þeir raðast, færu fram á launahækkanir. Þar væri ýmist rætt um að menntun þyrfti að meta til launa en jafnframt að hækka lægstu laun.

Sú skoðun kom einnig fram að minni bjartsýni stjórnenda kæmi til vegna þeirrar óvissu sem er á vinnumarkaði. Hópar innan verkalýðshreyfingarinnar hafi kallað eftir herskárri kjarabaráttu sem legðist illa í stjórnendur. Finnur Árnason, forstjóri Haga, tók þátt í pallborði eftir framsögur og lagði mikla áherslu á nauðsyn þess að tryggja stöðugleika. Halldór Benjamín benti á þessum nótum á í erindi sínu að Ísland ætti að hverfa af braut ósjálfbærra launahækkana, með tilheyrandi verðbólgu en lítilli aukningu kaupmáttar, og fara þess í stað Norrænu leiðina eins og hann kallaði hana, þar sem launahækkanir væru hóflegri en kaupmáttaraukning meiri og verðbólga minni - með samsvarandi lægra vaxtastigi.

Ásdís Kristjánsdóttir gagnrýndi í erindi sínu að skattar hafi ekki verið lækkaðir og að þeir væru hærri nú en á árunum fyrir hrun og benti á að hallalausum ríkisrekstri hefði meðal annars verið náð fram með skattahækkunum. Fjármálaráðherra benti hins vegar á að ýmsir skattar hefðu verið lækkaðir og skattkerfi einfölduð. Jafnframt sagði hann að íslenskt efnahagslíf gæti nú til dæmis greitt fyrir betri og dýrari lyf en áður og lagt í ýmsan kostnað sem áður hefði ekki verið mögulegt. Það væri því ekki markmið í sjálfu sér að útgjöld hins opinbera minnkuðu.

Loks gagnrýndi Heiðrún Lind í erindi sínu óljósar reglur á sviði samkeppnismála, sem birtist meðal annars í því að niðurstöður Samkeppniseftirlitsins væru nokkur hundruð blaðsíður. Þannig væri einnig ekki af hinu góða að Samkeppniseftirlitið gæti skotið úrskurðum Áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla, og þannig sett ákvörðunarþola í þá stöðu að þurfa að verja niðurstöðu nefndarinnar.

Snörp lækkun á mati á núverandi aðstæðum

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, lækkar töluvert og hefur ekki verið lægri síðan árið 2014. 60% stjórnenda telja aðstæður í atvinnulífinu góðar, samanborið við 70% fyrir þremur mánuðum síðan, og 12% telja þær slæmar en 5% töldu svo þá. Innan við helmingur stjórnenda fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni telja aðstæður góðar samanborið við tvo þriðju hluta annarra stjórnenda.

Nánar á vef Samtaka atvinnulífsins.