Skyr er selt á Kastrup flugvelli, aðalflugvelli Danmerkur, í verslun sem heitir Lagkagehuset. Skyrið er skilmerkilega auglýst í versluninni þar sem tekið er fram að um skandínavíska framleiðslu sé að ræða. Skyr er framleitt á Íslandi, en einnig í Danmörku og Noregi með samningum við Mjólkursamsöluna. Að auki er það framleitt af ótengdum aðila í Danmörku án samninga við MS. Einar Sigurðsson, forstjóri MS, segir að fyrirtækið hafi ekki einkarétt á notkun heitisins skyr. Í auglýsingunni segir að skyr sé svipað grískri jógúrt en einungis með 0,2% fitu og jafnframt próteinríkt.

Skammt er síðan Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, lýsti áhyggjum sínum af því á Alþingi að íslensk framleiðsla myndi flytjast úr landi ef gjaldeyrishöft yrðu viðvarandi og ekki yrði fundinn stöðugri gjaldmiðill í stað krónunnar.

Hann sagði afleiðingarnar af haftastefnunni og núverandi stefnu í efnahagsmálum, ekki síst í höftum, geta orðið þá að störf flytjast úr landi, s.s. framleiðsla á þekktum innlendum vörumerkjum. Af þeim sökum geti Íslendingar átt von á því að sjá skyrdósir merktar: „Íslenskt skyr made in Sweden.“