Samtök iðnaðarins hafa bent á að skýrara eftirlit þurfi á einokunarhluta og samkeppnishluta raforkumarkaðarins til að hægt sé að ná markmiðum raforkulaga með aðgreiningu á starfsemi orkufyrirtækja. Eftirlit með samkeppnishluta raforkumarkaðarins er í höndum Samkeppniseftirlitsins en Orkustofnun sinnir eftirliti með einokunarhlutanum. Eins og fram kom í frétt Viðskiptablaðsins í gær hefur kvörtunum til Samkeppniseftirlitsins vegna háttsemi fyrirtækja á raforkumarkaði fjölgað undanfarið og útlit fyrir að aðkoma Samkeppniseftirlitsins að þeim markaði muni aukast á næstunni.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, að staðan á raforkumarkaði sé viðkvæm enda séu þar aðilar eins og Landsvirkjun sem beri höfuð og herðar yfir önnur fyrirtæki á markaðnum.

„Við sjáum það að einkaaðilum er því miður ekki alltaf gefið það rými sem þarf sem kemur í veg fyrir heilbrigða samkeppni á markaði og getur líka komið í veg fyrir að bestu lausnirnar verði innleiddar og nýttar á sem skilvirkastan hátt.“

Þó að Samkeppniseftirlitið eigi að koma í veg fyrir markaðshindranir bendir Sigurður á að stjórnvöld þurfi að leggja línurnar, hvort sem það er í gegnum orðræðu, löggjöf eða ákvarðanir. Viðfangsefni okkar tíma sé að innleiða nýja tækni sem dragi úr losun og þar geti stjórnvöld staðið sig betur.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.