Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir skýrar línur og valkosti að myndast í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun mælist Samfylkingin stærst í nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir blaðið, þó ekki muni miklu á flokknum og Sjálfstæðisflokki. Yrði þetta niðurstaða kosninganna í vor fengi hvor flokkur um sig átta menn af 23 í borgarstjórn. „Þetta er sterk niðurstaða og ánægjuleg fyrir meirihlutann en það er auðvitað enn langt til kosninga,“ segir Dagur.

„Ég held að þetta endurspegli ákveðinn vanda Sjálfstæðisflokksins sem er með frekar óljósar og óraunhæfar hugmyndir og virðist stefna til fortíðar. Hugmyndir um að dreifa byggð og auka þar með umferðartafir eru eitthvað sem ég held að borgarbúar taki einfaldlega ekki undir,“ segir Dagur.

Hann segir meirihlutasamstarfið hafa verið mjög gott og meirihlutann hafa skýra framtíðarsýn. „Það eru að teiknast upp býsna skýrir valkostir og línurnar að skerpast milli þess að stefna að áhugaverðri, fjölbreyttri og grænni borg eða þess að hverfa til fortíðar með óljósum hugmyndum,“ segir Dagur.