The Engine, íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig markaðssetningu á netinu, hlaut nýverið alþjóðlegu Evrópuleitarverðlaunin (e. European Search Awards) fyrir auglýsingaherferð sem það vann í samstarfi við MS í tengslum við komu íslenska skyrsins á markað í Bretlandi.

Verðlaunin voru veitt í flokknum Besta staðbundna herferðin (e. Best Local Campaign) sem er sögð ein af virtari og eftirsóttari verðlaunum keppninnar í fréttatilkynningu um málið. Dómarar keppninnar voru á einu máli um að hér væri á ferðinni öflug herferð þar sem íslensk afurð væri kynnt vel skilgreindum markhópi á ákveðnu svæði í Bretlandi.

Komu verðlaunin á óvart

Guðbjörn Dan Gunnarsson, framkvæmdastjóri The Engine, segir verðlaunin hvatning fyrir fyrirtækið að halda áfram á sömu braut.
„Við hjá The Engine erum afskaplega stolt af samstarfi okkar við MS og þeim árangri sem náðst hefur í Bretlandi,” segir Guðbjörn og bætir hann við að samkeppnin hafi verið gríðarlega hörð.

Því hafi það því komið honum og samstarfsfólki hans skemmtilega á óvart að hljóta verðlaunin þar sem önnur fyrirtæki sem tilnefnd voru í flokknum eru á meðal þekktustu og virtustu netmarkaðsfyrirtækja heims.

Auglýsingaefninu breytt

MS vann náið með The Engine að undirbúningi herferðarinnar og var auglýsingaefninu fyrir skyrið breytt og það aðlagað sérstaklega til að falla sem best að netherferð í Bretlandi. „Þessi verðlaun eru enn frekari staðfesting á því hvað gott efni og góð skipulagning getur skilað miklu í því að auka vitund neytenda erlendis á íslenska skyrinu í gegnum netið,“ segir Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS.

„Auglýsingabirtingar á netinu eru margfalt ódýrari en í hefðbundnum miðlum eins og sjónvarpi, dagblöðum og tímaritum, sér í lagi þegar stærri og dýrari markaðir eins og Bretland eiga í hlut,“ segir Guðný enn fremur.

Erna Erlendsdóttir, vef- og vörumerkjastjóri hjá MS, sagði fyrirtækið vilja vekja athygli á komu íslenska skyrsins til Bretlands.
„Ákváðum við því að fara þá leið að notast við netauglýsingar, en á ákveðnum netmiðlum er hægt að beina þeim á tiltekna markhópa og ná þannig beint til þeirra sem ætlunin er að höfða til,“ segir Erna.

Google gerði tilviksrannsókn

Evrópuleitarverðlaunin eru ekki eina viðurkenningin sem samstarf The Engine og MS, við þessa herferð, hefur skilað því áður hafði Google boðið fyrirtækjunum að mæla árangurinn af herferðinni.

Í kjölfar niðurstaðna úr þeirri könnun óskaði Google eftir leyfi til að gera svokallaða tilviksrannsókn (e. case study), tengda þessari tilteknu herferð með það að markmiði að sýna minni fyrirtækjum að það getur verið árangursríkt að notast við þá þjónustu sem þeir bjóða upp á í gegnum Google Adwords.