Skyr hefur slegið rækilega í gegn í Noregi á síðustu tveimur árum. Framleiðsla hófst árið 2009 og á þessu ári er gert ráð fyrir að meira skyr verði framleitt í Noregi en á Íslandi. Aðeins mánuði eftir að skyrsala hófst í Noregi þurfti að stækka framleiðsluaðstöðuna um helming.

„Við vorum að líta í kringum okkur eftir nýrri vöru árið 2007 og horfðum í því skyni til þess hversu mikill fjöldi mjólkurbúa er á Íslandi. Við hugsuðum sem svo að fyrst svona mörg mjólkurbú starfa í landi með um 310 þúsund íbúa, hljóta þau að vera með góðar vörur og við hljótum að geta lært eitthvað af þeim. Við fórum því í námsferð til Íslands og kynntumst þar skyri. Við ákváðum að láta slag standa og fengum uppskriftina að skyri með okkur aftur til Noregs,“ segir Bent Myrdal, framkvæmdastjóri Q-Meieriene í Noregi, en ekki er of djúpt í árinni tekið að segja að skyr hafi slegið rækilega í gegn þar í landi á síðustu árum.

Framleiðsla og sala á skyri hófst þar í landi árið 2009 og aðeins tveimur árum síðar er framleitt meira í Noregi af þessari mjólkurafurð sem í aldanna rás hefur reynst Íslendingum svo vel. Þar með má segja að hringnum sé lokað en almennt er talið að landnámsmenn, víkingar frá Noregi, hafi komið með uppskriftina að skyri með sér til Íslands fyrir rúmum 1100 árum.

„Að sjálfsögðu renndum við svolítið blint í sjóinn með þessa framleiðslu en við sjáum svo sannarlega ekki eftir því,“ segir Myrdal og bætir því við að móttökurnar hafi strax í upphafi verið vonum framar: „Salan var í grófum dráttum tvöfalt meiri en við höfðum gert ráð fyrir og við þurftum að stækka framleiðsluaðstöðuna um helming aðeins mánuði eftir að varan kom fyrst á markað.“ Hann segir afurðina hafa unnið til fjölda viðurkenninga í Noregi á þessum tveimur árum sem liðin eru frá því hún kom þar fyrst á markað. Þannig var skyr valið nýjung ársins 2009 auk þess sem Q-Meieriene fengu nýsköpunarverðlaun DLF (félags dagvörukaupmanna) árið 2010.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöp.