Nefnd, sem falið var að fjalla um langtímaleigu á Grímsstöðum á Fjöllum til Kínverjans Huang Nubo, mun kynna tillögur sínar í vikunni. Þetta kemur fram í samtali Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við fréttastofu RÚV.

Eigendur sem eiga 72% hlut í Grímsstöðum vilja selja eignahaldsfélagi sveitarfélaga á svæðinu jörðina sem síðan yrði leigð Kínverjanum. Nefndin var skipuð til að kanna hvort þetta væri heimilt og skila tillögum.

„Þær tillögur hafa verið lagðar fram og eru í ákveðinni lögfræðilegri vinnu á milli innanríkisráðuneytisins og atvinnuvegaráðuneytisins og við eigum von á því að kynna tillögurnar og leggja þær bara á netið og menn geta þá skoðað þær strax í næstu viku,“ segir Hanna Birna í samtali við RÚV.