Skýrr hefur gert fjórum ráðuneytum tilboð um rekstur á tölvudeildum þeirra fyrir 20% lægra verð en sem nemur kostnaði þeirra í dag. Þær tölvudeildir sem um ræðir eru tölvudeild Fasteignamats ríkisins, tölvudeild dómsmálaráðuneytisins (TMD), tölvudeild Umferðarstofu og tölvudeild Tryggingastofnunar. Ráðuneytin sem hér um ræðir eru fjármála-, dómsmála-, samgöngu- og heilbrigðisráðuneyti. Að sögn Hreins Jakobssonar, forstjóra Skýrr, hefur þessum ráðuneytum verið send bréf þar sem tilboð fyrirtækisins er útfært.

Í viðtali við Hrein í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að bréfið er sent í tilefni þess að Skýrr var úrskurðað í hag í máli þeirra gegn Umferðastofu eins og kemur fram annars staðar í blaðinu í viðtali við Hrein. Í bréfi sínu vísar Skýrr til innkaupastefnu ríkisins en meginmarkmið þeirrar stefnu er að ná fram sparnaði í opinberum rekstri. Að sögn Hreins nær þessi stefna ekki eingöngu til aðkeyptrar vöru og þjónustu, heldur einnig innri rekstrar ríkisins. Þar segir að rekstur ríkisins verði ávallt að standast samanburð við það sem gerist á almennum markaði. "Jafnframt segir að ef komi fram hugmyndir af hálfu einkaaðila um að leysa verkefni með hagkvæmari hætti verði viðkomandi ríkisstofnun að sýna fram á hver er kostnaður hennar af verkefninu og gaumgæfa hvort það sé örugglega leyst með hagkvæmari hætti af hennar hálfu miðað við það hvernig einkaaðilinn myndi standa að málum," segir Hreinn.

Að sögn Hreins er staðreyndin sú að rekstur tölvukerfa sé sjaldnast boðinn út, þveröfugt sem gerist oft með hugbúnaðarþróun. Nýlegt dæmi um þetta er smíði á nýju bótakerfi Tryggingastofnunar sem boðið var út. Þegar kerfið hins vegar var tilbúið hafi Tryggingastofnun ákveðið að reka kerfið sjálft en áður hafði Skýrr séð um það. Hreinn sagðist í sjálfu sér ekki sjá nein rök fyrir því nema ef það væri metnaður stjórnenda ríkisstofnana að auka og víkka rekstur þeirra út.

"Ég held að þetta sé kolröng stefna því menn komast hins vegar oft að því að það er mikill dulinn kostnaður við að reka þessi tölvukerfi. Það þarf að taka tillit til þátta eins og sérhæfðra starfsmanna með margvíslega þekkingu og allra þeirra aðfanga sem þarf til slíks rekstrar. Mikið af þessum kerfum kallar á mjög fullkomna aðstöðu til að hýsa og reka slík kerfi m.a. varðandi innra og ytra öryggi. Við rekum sérhæft fyrirtæki í upplýsingartækniþjónustu og erum sannfærðir um að geta rekið þessi kerfi hagkvæmar en einstakar tölvudeildir hjá opinberum stofnunum. Þess vegna treystum við okkur til þess að gera þessum ráðuneytum tilboð um 20% læra verð en það kostar þau í dag. Við væntum þess að þessu tilboði verði tekið fegins hendi og viðkomandi ráðuneyti nýti sér slíkt sem þátt í því að hagræða í opinberum rekstri og veitir nú ekki af."