Microsoft hefur tekið íslenska upplýsingatæknifyrirtækið Skýrr inn í svokallaðan „Inner Circle“-hóp samstarfsaðila Microsft. Í fréttatilkynningu frá Skýrr segir að þangað komist einungis þau fyrirtæki sem Microsoft telur hafa sýnt bestan árangur í að nýta viðskiptalausnir félagsins, Microsoft Dynamics, til að þróa og efla starfsemi viðskiptavina sinna.

Fyrirtæki sem komast í innsta hring hjá Microsoft halda nafnbótinni í eitt ár í senn. Í ár komust 72 félög í hringinn en samstarfsaðilar Microsoft skipta þúsundum.

„Við erum eðlilega mjög stolt af þessari útnefningu, því Microsoft er kröfuharður og metnaðarfullur samstarfsaðili. Skýrr hefur árum saman unnið markvisst að því að breikka og dýpka framboð sitt í þjónustu við Microsoft-lausnir. Sú þróun hefur verið knúin áfram af óskum okkar viðskiptavina. Við lítum á útnefninguna sem góða viðurkenningu og ákveðinn áfanga á langri vegferð,“ segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Skýrr í tilkynningu.