Skýrr hf. hefur lokið áreiðanleikakönnun vegna kaupa á 58,7% eignarhlut í EJS hf. Í kjölfarið hafa verið undirritaðir endanlegir samningar um kaupin. EJS verður dótturfélag Skýrr. Velta EJS-samstæðunnar á síðasta ári nam um 3,6 milljörðum króna og reksturinn gekk vel. Þar starfa um 150 starfsmenn segir í tilkynningu Skýrr.

Þar kemur einnig fram að EJS veitir víðtæka þjónustu á sviði upplýsingatækni og byggir byggir reksturinn á þremur stoðum. Í fyrsta lagi tölvu- og samskiptalausnum, í öðru lagi þróun hugbúnaðarlausna og í þriðja lagi rekstrarlausnum, svo sem útvistun tölvukerfa, kerfisveitu og hýsingu. Auk móðurfélagsins EJS hf., teljast til samstæðunnar dótturfyrirtækin Eskill ehf., iSoft ehf., Símland ehf. og Hýsing ehf.

Starfsemi Skýrr skiptist í þrjú kjarnasvið, sem eru hugbúnaðarlausnir, rekstrarlausnir og fjarskiptalausnir. Skýrr er samstarfsaðili Business Objects, Microsoft, Oracle og VeriSign. Starfsemi fyrirtækisins er vottuð samkvæmt alþjóðlega gæða- og öryggisstaðlinum ISO 9001. Skýrr hefur um 200 starfsmenn og 2.200 viðskiptavini. Velta fyrirtækisins árið 2005 nam um 2,3 milljörðum.

Þess má geta að aðalfundur í EJS hf. verður haldinn á fimmtudaginn kemur, 9. mars, þar sem kosin verður ný stjórn fyrir félagið.