Skýrr hf. hefur keypt meirihluta hlutafjár í hugbúnaðarhúsinu Elementi hf. af Kaupfélagi Skagfirðinga. Í kjölfarið mun Skýrr gera yfirtökutilboð til annarra eigenda hlutafjár í félaginu. Næstu mánuðina verður Element rekið sem dótturfyrirtæki Skýrr, en síðar er áætlað að sameina rekstur fyrirtækjanna undir nafni Skýrr. Samstarf Kaupfélagsins og Skýrr hefur verið umtalsvert gegnum árin, en Skýrr og Opin kerfi ehf., systurfélag Skýrr, áttu fyrir 32 prósenta eignarhlut í Elementi.

Í tilkynningu frá Skýrr kemur fram að meðal markmiða Skýrr með þessum kaupum er að bæta Navision-viðskiptalausnum frá Microsoft við vöru- og þjónustuúrval Skýrr. Fyrirtækið hefur hin síðari ár einbeitt sér að viðskiptalausnum frá Oracle Corp., en þær henta einkum stórum fyrirtækjum og stofnunum. Navision-viðskiptalausnir, sem tilheyra deild hjá Microsoft er nefnist Microsoft Business Solutions, henta aftur á móti sérstaklega vel fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Með kaupum Skýrr á Elementi má segja að hringnum sé lokað og að fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum geti nú leitað til Skýrr þegar kemur að fjárhags- og mannauðslausnum.

Fjölnetið, sem er dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga, hefur samhliða þessu undirritað rekstrar- og þjónustusamning við Skýrr. Það mun eftirleiðis einbeita sér að rekstri háhraðanets á Norðurlandi. Fjölnet hefur um nokkra hríð séð um alla tölvurekstrarþjónustu fyrir Kaupfélag Skagfirðinga og fleiri aðila á svæðinu.

Litlar sem engar breytingar eru fyrirhugaðar á þjónustu Elements við viðskiptavini vegna fyrirhugaðra breytinga á eignarhaldi félagsins. Áfram verður mikið og gott samstarf við Kaupfélag Skagfirðinga, sem hefur gegnum tíðina ekki einungis verið stærsti hluthafinn í Elementi, heldur einnig verið meðal stærstu viðskiptavina fyrirtækisins. Skýrr mun áfram reka starfsstöð fyrir Element á Sauðárkróki.

Meðal helstu viðskiptavina Elements eru Byggðastofnun, Fiskiðjan Skagfirðingur, Fjárvaki, Fjölbrautarskóli NV, Fjölnet, Flugleiðahótelin, Hólaskóli, Hóp, Kaupfélag Borgfirðinga, Kaupfélag Húnvetninga, Kaupfélag Skagfirðinga, Kaupfélag Vestur-Húnvetninga, KSÍ, ORA, Osta- og smjörsalan, sveitarfélagið Skagafjörður, Skrín, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Steinullarverksmiðjan, Subway og Vírnet-Garðastál.

Element hf. var stofnað árið 1996 sem hátæknifyrirtæki sem sérhæfði sig í þróun og framleiðslu skynjara. Tveimur árum seinna keypti fyrirtækið hugbúnaðardeild Kaupfélags Skagfirðinga og hófst þá vinna við að þróa, innleiða og selja viðskiptahugbúnað frá Navision í Danmörku. Í júní árið 1999 var skynjarasviðið selt og eftir það hefur Element verið sérhæft fyrirtæki á sviði upplýsingatækni.

Element hf. hefur frá ársbyrjun 2000 verið viðurkenndur samstarfsaðili Navison Software á Íslandi, en Navision er í eigu Microsoft. Í apríl sama ár keypti Element hugbúnaðardeild Heimilistækja en viðskiptavinir þeirra voru fjölmargir í Reykjavík og nágrenni. Vegna verkefna fyrir Íbúðalánasjóð í samstarfi við Fjárvaka og aukinna viðskipta á höfuðborgarsvæðinu var opnuð skrifstofa í Reykjavík í maí sama ár.