Skýrr, dótturfélag Kögunar, hefur skrifað undir samning um kaup á 58,7% eignarhlut í EJS, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Velta samstæðunnar á síðasta ári nam um 3,6 milljörðum króna og gekk reksturinn vel, segir í tilkynningunni. Hjá EJS samstæðunni starfa alls um 150 starfsmenn.

Samningurinn er með fyrirvörum, meðal annars um hefðbundna áreiðanleikakönnun, sem gert er ráð fyrir að ljúka í byrjun mars.

Skýrr fjármagnar kaupin með lausafé og fyrirhugaðri lántöku.

Kaupverðið er trúnaðarmál. Straumur-Burðarás fjárfestingabanki var ráðgjafi seljanda.