Sameina á Skýrr, Kögun, Eskill og Landsteina-streng í eitt fyrirtæki. Hið nýja fyrirtæki mun starfa undir merkjum Skýrr.

Þetta verður tilkynnt nú í hádeginu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Fyrirtækin eru öll í eigu Teymis sem var yfirtekið af lánadrottnum sínum fyrr í sumar eftir nauðasamninga. Stærsti einstaki eigandi Teymis er Nýi Landsbankinn sem eignarumsýslufélagið Vestia heldur á rúmlega 60 prósent hlut bankans í Teymi fyrir hönd hans.

Forstjóri hins nýja fyrirtækis verður Gestur G. Gestsson, sem tók við forstjórastöðunni í Teymi í síðustu viku,. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Þórólfur Árnason, sem hefur verið forstjóri Skýrr, muni láta af störfum í kjölfar breytinganna.

Ljóst er að nýir eigendur Teymis ætla sér að koma á breytingum á félaginu. Árni Pétur Jónsson lét til að mynda af störfum sem forstjóri Teymis í síðustu viku. Aðrar stórar eignir Teymis eru Vodafone, Tal og EJS.

Starfsfólk hins nýja fyrirtækis verður 320 talsins.