Stefnt er að skráningu upplýsingatæknifyrirtækisins Skýrr árið 2013 og stendur til að skrá félagið tvíhliða, annars vegar á Íslandi og hins vegar í annað hvort Osló eða Stokkhólmi. Þetta segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Skýrr í samtali við Markaðinn, viðskiptablað Fréttablaðsins, í dag. „Við stefnum að því að fyrirtækið verði skráningarhæft í lok árs 2012 og horfum til tvíhliða skráningar á hlutabréfamarkað árið 2013,“ segir hann.

Að sögn Gests er nóg að gera í upplýsingatækni og uppsveifla í iðnaðinum bæði í Noregi og Svíþjóð og segir hann stöðu dótturfélaga Skýrr sterka í báðum löndum. Hann segir Skýrr nú vera áttunda stærsta upplýsingatæknifyriræki Norðurlanda.

Skýrr var áður hluti af Teymi ásamt Vodafone en að undanförnu hefur verið unnið að því að aðskilja fyrirtækin og lauk því starfi um áramótin þegar þau voru endanlega skilin að og er Teymi því ekki til lengur. Skýrr samanstendur í dag af fyrirtækjum sem áður hétu Skýrr, Landsteinar-Strengur, Kögun, Eskill og EJS.

Þúsund starfsmenn í vinnu

Viðskiptablaðið greindi frá því í nóvember 2010 að til stæði að skipta upp Teymi í upplýsingatæknihluta og svo fjarskiptahluta og skrá í kjölfarið á skipulegan verðbréfamarkað. Þá upplýsti Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðsins sem keypti þessi félög með Vestia, að upplýsingatæknihlutinn velti um 24 milljörðum króna á ári og væri með um þúsund starfsmenn í vinnu.  Vodafone er með um 16 milljarða króna í veltu sé starfsemin í Færeyjum talin með. Þar innanborðs eru um 400 starfsmenn.