Títan, fjárfestingafélag Skúla Mogensen, greiddi alls um 140 milljónir króna fyrir 5,17% hlut í Skýrr. Tilkynnt var um kaupin í síðustu viku en um hlutafjáraukningu var að ræða. Miðað við viðskiptin er heildarvirði hlutabréfa Skýrr tæplega 2,8 milljarðar króna. Greint er frá í Markaði Fréttablaðsins í dag.

Skýrr keypti Thor Data Center seint á síðasta ári, sem var að þriðjungshlut í eigu Títans. Skúli segir í samtali við Fréttablaðið að kaupin í Skýrr séu gerð í kjölfar þeirra viðskipta. Þá hafi hann kynnst félaginu almennilega.

Viðskiptablaðið ræddi við Gest G. Gestsson, forstjóra Skýrr, fyrr í vikunni. Hann sagði tengsl milli kaupa á Thor Data Center í nóvember og viðskiptanna nú ekki vera bein. Aðilar hafi hins vegar kynnst þegar Skýrr keypti gagnaverið og áhugi Skúla á félaginu vaknað.