Skýrr, HugurAx og norræn dótturfyrirtæki hafa nú öll verið sameinuð undir nafninu Advania.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Advania.Þar segir að nafnabreytingin sé lokahnykkur á tveggja ára sameiningarlotu níu fyrirtækja og liður í umbreytingu fyrirtækisins í alþjóðlegt þjónustufyrirtæki með víðtæka starfsemi.

Við nafnbreytinguna hverfa vörumerkin Skýrr, HugurAx og EJS á Íslandi, ásamt Hands í Noregi, Kerfi í Svíþjóð og Aston-Baltic í Lettlandi.

„Við höfum unnið hörðum höndum í tvö ár að samþættingu Skýrr og dótturfélaga hér heima og á Norðurlöndum. Nú sameinum við okkar frábæra starfsfólk undir einu merki,“ segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, í tilkynningunni.

Fram kemur að orðið „Advania“ sé dregið af enska orðinu „advantage“, sem þýðir forskot.

„Og þetta er það sem við viljum veita okkar góðu viðskiptavinum: forskot á sínum vettvangi með traustri þjónustu og skapandi lausnum,“ segir Gestur.

Stærsti eigandi Advania er Framtakssjóður Íslands. Aðrir eigendur eru meðal annars Skúli Mogensen og fjárfestingafélagið Títan, Landsbankinn, VÍS og um 40 smærri hluthafar.

Gestur Gestsson - Forstjóri Skýrr
Gestur Gestsson - Forstjóri Skýrr
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania.