Skyrsalan á Norðurlöndunum hefur á síðasliðnum fimm árum sexfaldast í magni. Um 80% af skyrsölu Mjólkursamsölunnar (MS) og samstarfsfyrirtækja eru á erlendri grundu. Auk Íslands hefur skyr verið selt í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, en einnig nýlega í Sviss og Færeyjum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.

„Það er útilokað að anna allri eftirspurninni frá Íslandi þar sem framleiðslugetan er einfaldlega ekki næg. Til þess þyrfti helming af allri mjólk sem framleidd er í landinu,“ segir Jón Axal Pétursson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs MS, í samtali við Morgunblaðið. Nýverið gekk MS frá samningi við Thise í Danmörku um að auka framleiðslu fyrir MS úr 2.300 tonnum mjólkur á þessu ári í rúmlega 5.000 tonn á næsta ári til að mæta aukinni sölu í Finnlandi.

MS áætlar að selja yfir 100 milljónir dósa af skyri á næsta ári, en aukningin hefur verið stöðug á síðustu árum. Hefur skyrsalan á Norðurlöndunum síðastliðin fimm ár sexfaldast í magni. „Það elska það allir, ungir sem aldnir, hvar sem við setjum niður fót og kynnum það og seljum,“ segir Jón Axel.