Efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) er á áætlun og Ísland uppfyllir öll þau skilyrði sem landið á að uppfylla sem stendur. Þetta kemur fram í skýrslu starfsmanna AGS (e. Staff-report) um fimmtu endurskoðun á efnahagsáætlun sem trúnaði var aflétt af núna klukkan 15:00.

Í skýrslunni kemur fram að efnahagur landsins er á hægum batavegi og spá starfsmenn AGS 2,5% hagvexti hér á landi á árinu 2011. Þeir hafa þó töluverðar áhyggjur af atvinnuleysi hér á landi, sem er 8,1% tæpum þremur árum eftir bankahrun. Alls voru um 14 þúsund manns atvinnulausir í lok apríl síðastliðins. Þá telja starfsmenn AGS að neysluþrýstingur vegna nýgerðra kjarasamninga til þriggja ára, og þær launahækkanir sem þeim munu fylgja.

Endurskipulanging gengur of hægt fyrir sig

Í skýrslunni segir að þau lög um samræmdar aðgerðir vegna gengislánadóma, sem samþykkt voru á Alþingi í desember síðastliðnum, hafi flýtt fyrir því ferli að endurskipuleggja skuldir heimila. Endurskipulagning á skuldum fyrirtækja gangi hins vegar of hægt fyrir sig og þarf að flýta til að það ferli hafi ekki neikvæð áhrif á efnahagsbatann.

Þá telja starfsmenn AGS að það þurfi að hraða endurskipulagningu fjármálageirans, vinnu við að fastmóta regluverkið i kringum hann og eftirlit með honum. Sú vinna er í gangi, en hefur gengið of hægt að mati AGS.

Fjallar að mestu um afnám hafta

Fimmta endurskoðun AGS var samþykkt 3. júní síðastliðinn. Henni átti upphaflega að ljúka í apríl en tafðist töluvert, meðal annars vegna þess að frumvarp um framlengingu gjaldeyrishafta var ekki lagt fram fyrr en um mánaðarmótin mars-apríl. Framlagning slíkrar áætlunar var ein af forsendum þess að endurskoðunin myndi eiga sér stað.  Því snýst skýrsla starfsmanna AGS að mestu leyti um afnám gjaldeyrishafta að þessu sinni.

Stefnt er að því að efnahagsáætluninni ljúki í lok ágúst næstkomandi en tvær endurskoðanir eru eftir á henni.

Nánar verður fjallað um skýrsluna á vb.is fram eftir degi.