Skýrsla frá Alþjóðlegu efnahags- og þróunarstofnuninni (OECD) um íslenska efnahagslífið verður væntanlega kynnt hér á landi í næstu viku, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Ekki er vitað hver niðurstaða skýrslunnar er en einn viðmælandi Viðskiptablaðsins sagði ekkert koma á óvart í skýrslunni.

Áhugi erlendra aðila á íslenska efnahagslífinu hefur aukist verulega síðustu mánuði og í gær birtist jákvæð skýrsla frá matsfyrirtækinu Moody's Investors Service um íslenska fjármálakerfið og efnahagslífið.

Einnig hafa fjárfestingabankarnir Societe Generale og Credit Suisse nýlega sent frá sér skýrslur og benda á að umræðan um íslensku bankanna, sem voru gagnrýndir harkalega af erlendum greiningaraðilum í byrjun árs, hafi snúist við vegna aukins skilnings á starfsemi þeirra og sterkra sex mánaða uppgjara.

Í skýrslu matsfyrirtækisins Moody's segir að Ísland haldist í Aaa flokknum og að framtíðarhorfur landsins séu stöðugar, en sterk staða fyrirtækja í landinu, lág skuldastaða ríkisins og sterkur efnahagur sem þoli álag eru gefnar upp sem ástæður þessa.

"Ísland er rík og þróuð þjóð, sem stendur nú í umbótum sem sjá til þess að efnahagur landsins er að stækka og þróast," sagði höfundur skýrslunnar, Joan Feldbaum-Vidra.

Feldbaum-Vidra segir þó að aðrir þættir í alþjóðaefnahagsumhverfinu hafi þar áhrif á, meðal annars mikil og sífellt stækkandi skuldasöfnun í erlendum gjaldmiðlum, þá sérstaklega hjá bönkunum.

"Sökum þess hve íslensku bankarnir eru háðir fjármagni frá öðrum markaðssvæðum er hætt við því að hækkandi vextir í heiminum sem og breyttar áherslur fjárfesta geti valdið hættuástandi, bregðist bankarnir ekki við."

?Það er mat Moody's að áhyggjur um hættuástand bankanna hafi verið ýkt, skuldir bankana hafa fjármagnað sterkar fjárfestingar og eru eigur og skuldir bankanna því í réttu jafnvægi,"