Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands, hefur nú skilað inn skýrslu sinni sem fjallar um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins 2008. Skýrslan var unnin fyrir fjármálaráðuneytið og var hún afhent nú klukkan 13:00 í ráðuneytinu.

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að ekki hafa fundist nein ummerki um ólöglega fjármagnsflutinga frá Bretlandi til Íslands þrátt fyrir að breskir ráðamenn hafi sagt að þeir hefðu átt sér stað í samtölum við íslenska ráðamenn. Megnið af bresku innlánunum var notað í fjárfestingar í Bretlandi og veittu hátt í 100 þúsund manns vinnu. Þá er beiting hryðjuverkalaga breta sem beint var gegn Landsbankanum, Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu gagnrýnd harðlega.

Jafnframt er gagnrýnt að bresk stjórnvöld hafi bjargað öllum bresku bönknum í kjölfar efnahagshrunsins nema þeim tveimur sem voru í eigu Íslendinga þeim Heritable, sem var í eigu Landsbankans og Kaupthing Singer and Friedlander.

„Með því mismunuðu stjórnvöld á grundvelli þjóðernis, sem gengur gegn reglum um innri markað Evrópu. Samt var það mál ekki tekið upp af Framkvæmdastjórn ESB," segir í niðurstöðum skýrslunnar.

Tvær aðgerðir skiptu sköpum

Í skýrslunni kemur fram að tvær aðgerðir hafi skipt sköpum í þeirri keðjuverkun sem átti sér stað í bankahruninu. Sú fyrri var neitun Danske bank á fyrirgreiðslu til Glitnis í september 2008 sem varð til þess að Glitnir varð að leita til Seðlabankans um neyðarlán. Sú síðari var að Kaupthing Singer and Friedlander var lokað þann 8. október 2008 með þeim afleiðingum að móðurfélag fyrirtækisins hér á Íslandi féll vegna þess að lánalínur voru háðar áframhaldandi starfi KSF í Bretlandi.

Bandaríkjamenn neituðu Íslendingum um fyrirgreiðslu

Bandaríkjamenn veittu ýmsum þjóðum lausafjárfyrirgreiðslu í kjölfar hrunsins meðal annars Svíþjóð og Sviss. Ef svissneski bankinn UBS hefði ekki fengið slíka fyrirgreiðslu hefði hann fallið. Bankakerfið í Sviss nam tífaldri landsframleiðslu og var því stærra hlutfallslega en íslenska bankakerfið.

Bandarísk stjórnvöld neituðu Íslandi um fyrirgreiðslu. Skýringin á því er sögð vera sú að Ísland sé ekki lengur hernaðarlega mikilvægt í þeirra augum.

Gjaldeyrisskiptasamingurinn hefði gert Seðlabankanum kleift að hafa stjórn á atburðarásinni og fara hina svokallaða "sænsku leið" sem stjórnvöld þar í landi fóru í kreppunni á árunum 1991-1992.

Leiðin sem íslensk stjórnvöld fóru í kjölfar hrunsins var að skipta eignum gömlu bankanna upp í annars vegar innlendan og hins vegar erlendan hluta.

„Ýmsar erlendar eignir bankanna voru hirtar á smánarverði, oft með fulltingi stjórnvalda, til dæmis í Noregi, Finnlandi og Danmörku. Samanlagt tap af þessum útsölum kann að hafa numið 4,3 milljörðum evra eða 558 milljörðum íslenskra króna. Siðferðileg greining á framkomu stjórnvalda og kaupsýslumanna, sem hirtu eignir bankanna, sýnir, að þeir nýttu sér neyð Íslendinga á óréttmætan hátt. Ekki var um eðlileg markaðsviðskipti að ræða. Hugsanlega hefði íslenska bankakerfið átt fyrir skuldum, ef það hefði ekki hrunið í október 2008. Ef miðað er við þá forsendu, þá var tapið af fallinu 38,1 milljarðar evra," segir í skýrsunni.

Stærð bankakerfisins nauðsynlegt en ekki nægilegt skilyrði

Fram kemur að stærð íslenska bankakerfisins fyrir hrun hafi verið nauðsynlegt en ekki nægilegt skilyrði fyrir efnahagshruninu. Skýra þarf hvers vegna hætt komnir bankar eins og UBS, Danske bank og Royal Bank of Scotland hafi ekki fallið líkt og íslensku bankarnir.

Einnig er sagt að ekkert bendi til að eignir íslensku bankanna hafi verið lakari en annarra banka þó svo að íslensku bankarnir hafi gert mistök, m.a. að Kaupþing hafi gert tilraun til að kaupa hollenskan banka haustið 2007, Landsbankinn hafi safnað innlánum í útibúi í Hollandi í stað dótturfélags og íslensku bankarnir hafi lánað einum hópi meira en 5,5 milljörðum evra samtals eða sem nemur um 1 þúsund milljarði íslenskra króna.

Í lokin er tekið fram að það hafi reynst blessun fremur en bölvun að íslendingum hafi verið neitað um lausafjárfyrirgreiðslu og neyðst til að grípa til eigin ráða og tekið á skuldavanda sínum, en aðrar Evrópuþjóðir hafi enn ekki tekið á sínum skuldavanda.

Einnig kemur fram að þann almenna lærdóm sem draga má af bankahruninu sé að með því að gera innistæður að forgangskröfum er óþarft að veita bönkum ríkisábyrgð og þannig draga úr freistnivanda banka.