Mikilvægt er að skoða þá valkosti sem standa til boða í gengis- og peningamálum á Íslandi í ljósi þess að árangur þeirrar peningastefnu sem tekin var upp snemma á þessum áratug hefur ekki reynst nægur.

Þetta kemur fram í skýrslunni Peningastefnan eftir hrun sem Seðlabankinn gaf út í dag.

„Þótt fyrirkomulagið hafi verið byggt á hugmyndum hagfræðinnar um besta fyrirkomulag peningamála og reynslu fjölda landa sem náð hafa góðum árangri í stjórn peningamála, hefur árangur Seðlabankans í viðureigninni við verðbólgu verið slakur nánast allt tímabilið frá því að verðbólgumarkmiðið var tekið upp og verri en í öðrum ríkjum með sambærilegt fyrirkomulag,“ segir í skýrslunni.

Segir að væntanlega séu margar ástæður fyrir slökum árangri. Megi þar nefna að gerð íslensks þjóðarbúskapar geri sjálfstæða peningastefnu erfiða viðfangs, óvenjulegar aðstæður hafi verið í bæði alþjóðlegum og innlendum efnahagsmálum og fjármálamörkuðum og ákveðinn misbresti hafi verið í framkvæmd peningastefnunnar, sem tókst ekki að ávinna sér nægilegan trúverðugleika. „Þessu til viðbótar er líklegt að vaxandi alþjóðavæðing innlends fjármálakerfis og ofvöxtur þess hafi orðið til þess að veikja miðlun peningastefnunnar út í efnahagslífið og skapa áhættu í fjármálakerfinu sem magnaði gengissveiflur sem reyndust erfiðar viðureignar fyrir peningastefnuna. Stefnan í opinberum fjármálum var einnig mjög á skjön við stefnuna í peningamálum sem jók á neikvæð hliðaráhrif peningalegs aðhalds“