Verði fastgengisstefna gagnvart einstökum gjaldmiðli fremur en körfu gjaldmiðla fyrir valinu þegar framtíð peningastefnunnar verður ákveðin hníga veigamikil efnahagsleg rök að því að festa gengið við evru, frekar en t.d. Bandaríkjadal, breskt pund eða þá norrænu gjaldmiðla sem fljóta sjálfstætt.

Þetta segir í skýrslu Seðlabankans, Peningastefnan eftir höft, sem var gefin út í dag. Segir að til viðbótar skapist sérstök vandamál ef tengja eigi krónuna við t.d. Bandaríkjadal sem jafnan er talinn öruggt skjól fjárfesta í kreppum, „og hefur því tilhneigingu til að hækka þegar alþjóðlegur efnahagssamdráttur ríður yfir, í stað þess að lækka sem væri líklega hagstæðara fyrir Ísland við slíkar aðstæður. Að sama skapi gætu skapast vandamál við að tengja gengi krónunnar við gjaldmiðla olíuútflutningsríkja eins og Noregs.“

Í skýrslunni eru kostir og galla mismunandi forma fastgengisstefna raktir. Kemur fram að við einhliða fastgengisstefnu, svipaðri þeirri og rekin var hér á landi fram til ársins 2001, mætti ná sumum kostum þess að festa gengi krónunnar við annan gjaldmiðil. „Nafngengissveiflur myndu vissulega minnka, en hinn rekstrarhagræni ábati sem fylgir aðild að stærra gjaldmiðlasvæði yrði minni. Það sama má segja um áhrif á alþjóðaviðskipti. Rannsóknir sýna að það er fyrst og fremst sameiginlegur gjaldmiðill frekar en minni nafngengissveiflur sem stuðla að auknum alþjóðaviðskiptum.“

Segir að stærsta vandamál einhliða fastengisstefnu sé hversu viðkvæm hún sé fyrir spákaupmennskuárás. Það sýni reynslan. Efnahagslegur kostnaður þess að verja fastgengisstefnu sem sé undir þrýsingi geti verið gífurlegur, „eins og t.d. reynslan frá fjölda Evrópuríkja á fyrstu árum tíunda áratugar síðustu aldar og reynslan frá Suðaustur-Asíu á seinni hluta tíunda áratugar síðustu aldar sýnir glögglega. Þetta vandamál er sérstaklega alvarlegt í umhverfi nútíma fjármálakerfis, þar sem fjármagnsflutningar milli ríkja eru lítið sem ekkert heftir. Hætt er við því að slíkri stefnu þyrfti að fylgja óhemjumikill gjaldeyrisforði og jafnvel áframhaldandi gjaldeyrishöft.

Hefðbundinni einhliða fastgengisstefnu myndu því fylgja vandamál sem erfitt yrði að laga án stuðnings seðlabanka kjarnaríkisins og vafamál að slík stefna yrði til bóta í samanburði við þá stefnu sem nú þegar er fylgt. Fyrr eða síðar myndi reyna á fastgengisstefnuna og hætt við því að á endanum gefi hún eftir með töluverðum efnahagslegum kostnaði. Hafa rannsóknir sýnt að líftími slíkrar stefnu er jafnan tiltölulega stuttur.“

Innganga í Myntbandalag Evrópu besti kosturinn

Að mati Seðlabanka Íslands virðist innganga í Myntbandalag Evrópu, sem fylgir aðild að Evrópusambandinu, besti kosturinn ef á annað borð á að festa gengi krónunnar við evru eða taka hana upp sem innlenda mynt. „Þannig áynnust kostir trúverðugrar fastgengisstefnu með minni tilkostnaði en bæði upptaka myntráðs og einhliða upptaka evru. Seðlabanki Íslands fengi einnig aðild að Evrópska Seðlabankanum og hlutdeild í myntsláttuhagnaði (e. seigniorage) bandalagsins. Innlend fjármálafyrirtæki fengju jafnframt aðgang að lausafjárfyrirgreiðslu í evrum hjá Seðlabanka Evrópu, í gegnum Seðlabanka Íslands sem yrði hluti evrópska seðlabankakerfisins.“

Seðlabankinn útlistar einnig kosti og galla myntráðs og einhliða upptöku annars gjaldmiðils. Að mati bankans er hvorug fastengisstefnan betri en inngang í Myntbandalagið en við myntráð tryggir bankinn að hægt er að skipta krónum yfir í evrur á ákveðnu gengi hvenær sem almenningur óskar. Þetta tryggir bankinn með því að eiga nægilega mikinn gjaldeyrisforða. „Myntráðið virkaði þá þannig að í hvert skipti sem Seðlabankinn gæfi út íslenskar krónur, þyrfti hann að kaupa jafngildi þeirra í evrum. Peningastefnan yrði því enn síður sjálfstæð en í tilviki fastgengisstefnu sem gerir ráð fyrir einhverjum sveigjanleika.“

Skýrsla Seðlabanka Íslands .