Skýrsla franska fjárfestingarbankans Societé Générale styður það sem verðbréfamiðlarinn Jerome Kerviel hefur sagt yfirvöldum, segir lögmaður hans.

Í skýrslunni, sem SocGen lét PricewaterhouseCoopers vinna fyrir sig, er fjallað um hvernig Kerviel tókst að komast fram hjá áhættustjórnunarferli bankans og taka stöðu í evrópskum hlutabréfavísitölum fyrir 50 milljarða evra.Tap bankans vegna misferlisins nemur um 4,9 milljörðum evra.

„Skýrslan staðfestir það sem Kerviel hefur haldið fram,“ sagði lögmaður hans, Guillaume Selnet, um niðurstöður skýrslunnar í samtali við Bloomberg-fréttaveituna. „Eina hugsanlega skýringin er bæði kæruleysi stjórnenda og kerfislægt vandamál innan bankans,“ segir Selnet.

Í skýrslunni eru yfirmenn Kerviels gagnrýndir fyrir að hafa ekki brugðist við nokkrum „viðvörunarbjöllum“. Þeir tóku ekki eftir að minnsta kosti 1.071 falsaðri færslu sem Kerviel gerði til að hylja slóð sína, segir í skýrslunni

Kerviel sætir rannsókn fyrir trúnaðarbrot í starfi, fyrir að hafa falsað gögn og brjótast inn í tölvukerfi bankans til að framkvæma og leyna færslum sem hann gerði. Ef hann verður sakfelldur gæti hann átt von á allt að fimm ára fangelsi og 375 þúsundum evra í sekt.

Kerviel hefur gengist við því að hafa stundað verðbréfaviðskipti utan valdheimilda og fyrir að hafa falsað gögn til að hylja slóð sína. Hins vegar hefur hann ávallt haldið því fram að yfirmenn hans hafi vitað af viðskiptum hans -- en kosið að líta undan á meðan allt lék í lyndi.

Í skýrslunni, sem byggðist meðal annars á viðtölum við 315 manns frá Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu, kemur fram að stjórnendur bankans hafi „umborið“ viðskiptahætti Kerviels. Það gæti rennt stoðum undir þá staðhæfingu Kerviels að hann hafi ekki rofið trúnað gagnvart bankanum með því að taka stærri stöður í hlutabréfavísitölum en honum hafi verið heimilt.