Starfshópur fimm ráðuneyta um málefni Keflavíkurflugvallar hefur skilað af sér skýrslu til forsætisráðherra. Hafði starfshópnum verið falið að undirbúa löggjöf um Keflavíkurflugvöll með hliðsjón af tillögum nefndar, sem starfaði á grundvelli l. nr. 176/2006 um yfirfærslu flugvallarins til samgönguráðuneytisins, og tillögum Pricewaterhouse Coopers um atvinnuuppbyggingu í nágrenni flugvallarins. Síðarnefndu tillögurnar voru unnar meðal annars að frumkvæði sveitarfélaga á Suðurnesjum. Frumvarp samgönguráðherra byggt á tillögum starfshópsins var samþykkt í ríkisstjórn í morgun og verður nú sent til meðferðar þingflokka ríkisstjórnarinnar. Í starfshópnum eiga sæti Páll Þórhallsson, lögfræðingur forsætisráðuneyti, Veturliði Þór Stefánsson, lögfræðingur utanríkisráðuneyti, Þórhallur Arason, skrifstofustjóri fjármálaráðuneyti, Karl Alvarsson, skrifstofustjóri samgönguráðuneyti, og Þórður H. Hilmarsson, forstöðumaður Fjárfestingastofu, fulltrúi iðnaðarráðuneytis. Í samræmi við tillögur starfshópsins, sbr. einnig skýrslu forsætisráðherra til Alþingis um Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. frá 6. desember 2007, ákvað ríkisstjórnin í morgun að hafnar verði viðræður við sveitarfélögin fimm á Suðurnesjum um heppilega umgjörð til lengri tíma litið fyrir atvinnuþróun í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Stefnt er að því að ljúka viðræðunum eigi síðar en 1. júní næstkomandi að höfðu samráði við helstu hagsmunaaðila á svæðinu. Var ákveðið að fela ofangreindum starfshópi, undir forystu forsætisráðuneytisins, að leiða þessar viðræður af hálfu ríkisins.