Starfshópur um aukna matvælaframleiðslu á Íslandi mun að öllum líkindum ekki skila tillögum sínum fyrir áramót. Þetta segir Sigurgeir Þorgeirsson, formaður starfshópsins.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skipaði í mars síðastliðnum starfshóp sem hefur það hlutverk að koma með tillögur og ábendingar um það hvernig bregðast eigi við aukinni eftirspurn eftir matvælum og hækkandi verðlagi á erlendum mörkuðum. Starfshópnum var gert að skila skýrslu til ráðherra í síðasta lagi 1. október síðastliðinn.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Sigurgeir að hópurinn hafi komið saman tvisvar sinnum í vor en að störf hópsins hafi legið niðri síðan í sumar. Engar hugmyndir hafi verið mótaðar, heldur sé gagnavinna í gangi, til að mynda varðandi svigrúm sé til að auka innlenda framleiðslu í garðyrkju og útflutning á lambakjöti og mjólkurafurðum.

„Það er auðvitað ekkert einfalt að meta þetta. Þetta er háð verðsveiflum á erlendum mörkuðum, gengisþróun hér innanlands og svo framvegis. Það er ekki einfalt að komast að einhverri niðurstöðu í þessu,“ segir Sigurgeir.