Ríkisendurskoðun mun skila af sér drögum að skýrslu í næstu viku um fyrirgreiðslu ríkisins við ýmsar fjármálastofnanir í kjölfar bankahrunsins. Samkvæmt Birki Jón Jónssyni, sem lagði fram beiðnina til forsætisnefndar Alþingis, verður endanlegri skýrslu svo skilað og gerð opinber í vikunni þar á eftir.

Farið var fram á að skoðaðar verði stjórnvaldsathafnir ráðherra, stofnana eða annarra stjórnvalda sem falið hafa í sér veitingu fjár eða undirgöngu annarra fjárhagslegra skuldbindinga fyrir hönd ríkissjóðs til handa fyrirtækjum í kjölfar bankahrunsins.

Í beiðni Birkis Jóns kemur fram að honum hafi verið kunnugt um að Sjóvá, VBS, Saga Capital, Askar Capital, Byr og Sparisjóður Keflavíkur hafi notið beinnar eða óbeinnar fyrirgreiðslu af hálfu ríkissjóðs.