Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hyggst leggja fyrir Alþingi ítarlega skýrslu um niðurstöður höfuðstólslækkunar húsnæðislána. Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna.

Bjarni segist reikna með að skýrslan verði kynnt á þinginu næsta vor. Í fyrirspurn sinni spurði Katrín mjög ítarlega út í niðurfærslu verðtryggðra fasteignaveðlána. Alls lagði hún 15 spurningar fyrir ráðherrann, sem svaraði því til að eins og staðan væri í dag vantaði of mikið upp á endanlegar niðurstöður til að skynsamlegt væri að draga „nægilega marktækar ályktanir um þetta mál“.

Katrín spurði meðal annars að því hversu margir umsækjendur fengu enga höfuðstólslækkun og hversu margir framteljendur sem greiddu auðlegðarskatt fengju niðurfærslu.