*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 25. júní 2019 16:27

Skýrslan staðfesti samkeppnisbrot

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda fagnar úttekt á málum Íslandspósts þó vankantar séu á henni.

Ritstjórn
Ólafur Stephensen.
Haraldur Guðjónsson

Ekki verður annað séð en að skýrsla Ríkisendurskoðunar um Íslandspóst ohf. (ÍSP) staðfesti alvarleg samkeppnisbrot í rekstri fyrirtækisins. Þetta segir formaður Félags atvinnurekenda (FA) í tilkynningu frá félaginu þar sem brugðist er við nýútkominni stjórnsýsluúttekt á rekstri þess.

Líkt og rakið hefur verið á Viðskiptablaðinu í dag kemur fram í skýrslunni að einkaréttur ÍSP, á bréfum undir 50 grömmum, standi undir öllum sameiginlegum föstum kostnaði. Samkeppnisreksturinn beri á móti ekki neina hlutdeild í honum þó hann nýti sér þá.

„Ekki verður annað séð en að með þessu staðfesti Ríkisendurskoðun í raun alvarleg samkeppnisbrot í rekstri Íslandspósts. FA telur mikilvægt að breytingar verði gerðar á rekstri Íslandspósts til að rétta af þessa stöðu,“ er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í tilkynningu frá félaginu.

Framkvæmdastjórinn lýsir þó yfir vonbrigðum með að skýrslan svari ekki öllum þeim spurningum sem fjárlaganefnd Alþingis lagði fyrir ríkisendurskoðun.

„Þeirri spurningu er í raun áfram ósvarað hvaðan fjármagnið hefur komið, sem hefur runnið til margra misráðinna fjárfestinga Íslandspósts í samkeppnisrekstri undanfarin ár og hverjir bera ábyrgð á þeim röngu ákvörðunum. Það er verulegur ljóður á annars ágætri úttekt,“ segir Ólafur.

Stikkorð: Íslandspóstur