Skýrsla þeirra Ásbjörns Björnssonar og Ástráðs Haraldssonar um hæfi Gunnars Andersen er að fjallar að stórum hluta um svar Landsbankans við fyrirspurn FME um erlend dóttur- og hlutdeildarfélög árið 2001. Í svari Landsbankans, sem undirritað var af Gunnari Andersen fyrir hönd Landsbanka Íslands, var í engu getið um félögin LB Holding, NBI Holdings eða sjálfseignarsjóðinn sem átti þessi tvö félög.

Telja þeir Ásbjörn og Ástráður að í ljósi þessara og annarra tengdra atriða fram hafi komið upplýsingar um atvik sem er til þess fallið að draga megi í efa trúverðugleika forstjóra FME. Þeir ítreka þó í skýrslunni að ekkert í þeirra skoðun á þeim gögnum sem fyrir liggja tekur af tvímæli um að um lögbrot hafi verið að ræða. „Hér er frekar um að ræða huglæga niðurstöðu, byggða á gögnum málsins og þeirri opinberu umfjöllun sem hefur átt sér stað og ekki verður litið framhjá þrátt fyrir þann lagaramma sem til hliðsjónar er,“ segir í skýrslunni.

Gunnari var sagt upp störfum sem forstjóri FME í gærkvöld, en hann hefur frest til mánudags til að koma með andmæli við því sem í skýrslunni kemur fram. Vegna þess að málið komst í fréttir taldi Aðalsteinn Leifsson, stjórnarformaður FME, rétt að birta skýrsluna og var hún send til fjölmiðla í dag.

Braut ekki lög

Félögin tvö voru stofnuð til að halda utan um hlutabréf í bankanum vegna kauprétta starfsmanna bankans. Vegna þess að félögin voru tæknilega í eigu sjálfseignarstofnunar en ekki bankans þurfti bankinn ekki að draga hlutabréfin frá eigin fé líkt og hann hefði þurft að gera ef þau hefðu verið á bókum bankans eða dótturfélags hans.

Segja þeir Ásbjörn og Ástráður að gögn málsins beri ekki með sér neitt sem bendi til þess að Gunnar hafi brotið lög með aðkomu sinni að skipulagningu aflandsfélaganna. Ástæðulaust sé því að draga í efa niðurstöðu Andra Árnasonar um hæfi Gunnars að lögum til að gegna embætti forstjóra FME. Einnig telja þeir að ekki séu forsendur til þess á grundvelli starfsmannalaga að víkja forstjóranum frá störfum, hvorki tímabundið eða varanlega.

„Mat okkar er eigi að síður að fram hafi komið upplýsingar um atvik sem eru til þess fallnar að kasta rýrð á hæfi Gunnars Þ. Andersen til að gegna starfi forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Við teljum þessi atvik ekki leiða til vanhæfis hans til þess að gegna skyldum forstjóra, en upplýsingar um atvikin eru til almennrar umfjöllunar og geta truflað starfsemi FME og tafið fyrir uppbyggingu trausts almennings á starfsemi stofnunarinnar,“ segir í skýrslunni.

Lesa má skýrsluna á vef Fjármálaeftirlitsins hér .