Endurreisnarskýrslan sem lögð var fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í mars árið 2009 hefur verið misskilin að stærstum hluta. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, segir í samtali við Fréttatímann í dag skýrsluna safn skoðana, kaflaskipta samantekt á fjölda funda, ólíkum sjónarmiðum héðan og þaðan en aldrei eitthvað heildstætt uppgjör á hruninu. Bjarni vísar því hins vegar á bug að hann hafi leyft Davíð Oddssyni, fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins sem var seðlabankastjóri þegar skýrslan var kynnt á landsfundinum, að „jarða“ skýrsluna.

„Ég heyri marga spekúlanta segja að þetta hafi verið skýrslan sem hefði getað orðið syndaaflausn fyrir flokkinn, en ég leyfi mér að efast um að þeir hafi lesið mikið í henni [...].Mér fannst hún hinsvegar vera gott innlegg í umræðuna um það sem gerðist.“ segir Bjarni.

Í Fréttatímanum er jafnframt rifjað upp að í skýrslunni kemur fram eindregin afstaða með Evrópusambandinu, fyrrverandi seðlabankastjóri gagnrýndur fyrir „alvarleg mistök“ í lánveitingu til bankanna vegna endurhverfra viðskipta við Seðlabankann og fyrir að hafa leyft innlánasöfnun íslenskra banka erlendis.

„Það er mikill misskilningur að það hafi einhvern veginn staðið til með þessari skýrslu að afgreiða málið. Hún var safn af alls konar athugasemdum en enginn stóri dómur um eitt eða neitt,“ segir Bjarni.

Litprentaði langhundurinn

Skýrslan hefur komið upp annað slagið í skrifum manna á millum í vikunni. Vilhjálmur Egilsson, verðandi rektor Háskólans á Bifröst, leiddi starfshópinn sem vann að gerð skýrslunnar. Hann fór yfir það í viðtali í síðustu viku þegar Davíð Oddsson, gagnrýndi hana á landsfundi flokksins. Davíð svaraði Vilhjálmi í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins á sunnudag og sagði m.a. skýrsluna hafa verið „litprentaðan langhund“ sem ekki hafi risið undir miklu. Vilhjálmur vísar þeim fullyrðingum sem Davíð setti fram í Reykjavíkurbréfinu á bug í grein í sem birtist í Viðskiptablaðinu í gær.

Vilhjálmur skrifar:

„Starf endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins á árinu 2009 var merkileg úttekt á því hvað farið hafði úrskeiðis við landsstjórnina í aðdraganda bankahrunsins og hvernig best væri að hefja endurreisn atvinnulífsins og samfélagsins eftir það mikla áfall.“