Yfirhagfræðingur Danske Bank, Carsten Valgreen, og Lars Christensen, hjá greiningu bankans, munu sækja fund hér á landi á vegum Félags viðskipta- og hagfræðinga (FVH) í næstu viku, segir í tilkynningu frá FVH.

Fundurinn, sem haldinn verður á Grand Hótel þann 12. apríl, ber yfirskriftina "Horfur í íslenskum efnahagsmálum".

Christensen, Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, og Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbanka Íslands, munu halda erindi á fundinum.

Einnig fara fram pallborðsumræður og munu Valgreen, Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, og Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, leiða umræðurnar.

Halla Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, verður fundarstjóri.