Vonast er til skýrsla Ríkisendurskoðunar um starfsemi Lindarhvols komi út í lok nóvember. Þetta segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi. Hann hafði áður stefnt að því að skýrslan kæmi út í október.

„Þessari úttekt miðar vel áfram en á eftir að fara í lokaumsögn hjá hagsmunaaðilum. Miðað við hversu margir virðast vera uppteknir eða fjarverandi finnst mér líklegast að úttektinni muni ljúka í lok þessa mánaðar með birtingu stuttu síðar eftir umfjöllun Alþingis,“ segir Skúli Eggert.

Sigurðar Þórðarson, settur ríkisendurskoðandi, skilaði greinargerð um starfsemi Lindarhvols í júlí 2018 en tók þá fram að vinnunni væri ekki lokið. Síðan þá hefur ríkisendurskoðun unnið að útgáfu skýrslunnar.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra setti Lindarhvol á fót í apríl 2016, um að selja eignir sem ríkið eignaðist með stöðugleikaframlögum föllnu bankanna árið 2015. Starfsemi Lindarhvols var hætt í febrúar 2018 þegar óseldar eignir voru afhentar Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins upp í skuld ríkisins við lífeyrissjóðinn. Ríkið greiddi lögmannsstofunni Íslög 100 milljónir króna að meðtöldum virðisaukaskatti fyrir að sjá um rekstur Lindarhvols á þeim tæplega tveimur árum sem starfsemi var í félaginu.

Söluferli Lindarhvols á hlut Klakka árið 2016 hefur verið harðlega gagnrýnt. Forsvarsmenn félagsins Frigus II, sem er í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona, kennda við Bakkavör, segja að hæsta boði hafi ekki verið tekið að teknu tilliti til núvirðingar. Þá hafi engar upplýsingar verið gefin um Klakka í söluferlinu og árshlutauppgjör hafi ekki verið birt þó það hafi átt að liggja fyrir. Ríkið hafi orðið af um hálfum milljarði króna við söluna miðað við það verð sem TM hyggst greiða fyrir Lykil, stærstu eign Klakka.

Þá vinnur Seðlabankinn að skýrslu um Eignasafn Seðlabanka Íslands sem sá um flestar þær eignir sem enduðu í eigu Seðlabankans í kjölfar fjármálahrunsins 2008. Skýrslan átti að koma út fyrir ári en nú er búist við að hún komi út öðru hvoru megin við áramótin samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum.