Að sögn forstjóra Fjármálaeftirlitsins, Jónasar Fr. Jónssonar, ollu þær skýrslur sem bárust frá endurskoðendum stærstu fjármálafyrirtækjanna um fyrirgreiðslur til venslaðra aðila vonbrigðum. "Nánast undantekningalaust voru þær einfaldar yfirlýsingar um að allt væri í lagi en báru ekki með sér að rökstutt mat hefði farið fram. Fjármálaeftirlitið mun sjá til þess að fullnægjandi mat fari fram," sagði forstjórinn í ræðu sinni.

Fjármálaeftirlitið leggur sérstaka áherslu á að fylgjast með reglum um fyrirgreiðslur til venslaðra aðila. Á síðasta ári setti eftirlitið tilmæli þess efnis að ytri endurskoðendur færu yfir slíkar fyrirgreiðslur og bæru saman við sambærileg viðskipti annarra viðskiptavina og gæfu rökstutt álit um það hvort að armslengdarsjónarmið væru virt s.s. m.t.t. til kjara, endursamninga og stöðu viðkomandi.

Í ræðu forstjórans kom einnig fram að ef litið er á tölulegar upplýsingar þá hafa útlán til venslaðra aðila farið minnkandi sem hlutfall af heildarútlánum og sem hlutfall af eiginfjárgrunni hjá viðskiptabönkunum en vaxið verulega hjá stærstu sparisjóðunum.

Ársfundur Fjármálaeftirlitsins stendur nú yfir.