Ségolene Royal, forsetaframbjóðandi Sósíalistaflokksins, hefur á allra síðustu vikum færst áberandi mikið til vinstri í máflutningi sínum, og náði það hámarki í ræðu sem hún flutti síðasta sunnudag fyrir framan stuðningsmenn sína. Þar kynnti hún meðal annars stefnu sína í efnahagsmálum, sem miðar að því verja velferðarkerfi landsins gegn ógnum á borð við alþjóðavæðingu og efnahagsstefnu helsta keppinautar hennar, Nikolas Sarkozy, frambjóðanda hægri manna.

Sú efnahagsstefna sem Royal hefur boðað veldur hins vegar mörgum leiðtogum í frönsku viðskiptalífi áhyggjum. Þeir óttast að ef tillögur hennar um að hækka skatta á hátekjufólk og stærstu fyrirtæki landsins nái fram að ganga þýði það aðeins eitt: Fyrirtæki og einstaklingar muni flytja starfsemi sína og eignir til annarra ríkja. Fyrir skemmstu birtist skýrsla frá fjármálanefnd þingsins þar sem fram kemur að fjöldi þeirra sem flýr hina háu skattlagningu í Frakklandi tvöfaldaðist á milli áranna 2003 og 2005. Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar varð ríkissjóður Frakklands af 2,2 milljörðum evra í skattgreiðslum árið 2005, vegna þess að fólk ákvað að flýja háa skattlagninu þar í landi.


Stjórnmálaskýrendur hafa sumir hverjir bent á að margt sé líkt með Royal og síðasta forseta Frakklands sem kom úr röðum sósíalista, Francois Mitterand. Á fyrstu árum Mitterands í stóli forseta hrinti hann vinstri sinnaðri efnahagsstefnu sinni í framkvæmd, sem meðal annars fól í sér þjóðnýtingu á fyrirtækjum, 10% hækkun lágsmarkslauna, styttingu vinnuvikunnar og hærri velferðarbætur. Í anda keynesískrar efnahagsstefnu var markmið Mitterand að örva eftirspurn í hagkerfinu og fá hjól efnahagslífsins til að snúast á ný. Stefna hans beið hins vegar skipbrot; atvinnuleysi hélt áfram að aukast og verðbólga fór úr böndunum.

Í frétt breska blaðsins Financial Times á miðvikudaginn segir forseti eins af stærstu fyrirtækjum Frakklands, sem ekki vildi koma fram undir nafni, að það sé aftur á móti alls endis óvíst hvort Royal muni sýna sama raunsæi og Mitterand gerði, þegar ljóst var að efnahagsstefna hans hafði ekki náð markmiðum sínum. "Mitterand var að lokum raunsæismaður, tilbúinn til að breyta um stefnu eftir nokkur ár þegar hann gerði sér grein fyrir því að hún gengi ekki upp. En Royal stendur hins vegar fast á sinni hugmyndafræði."

Royal tókst að hneyksla marga leiðtoga í frönsku viðskiptalífi þegar hún sagði: "Ég stóð frammi fyrir óvininum sem hefur fylgt mér alla ævi, peningum. Ég er ekki að tala um venjuleg laun, heldur skjótfengin gróða. Ekki laun fengin með erfiðisvinnu, heldur fé fengið með græðgi."

Í samtali við Financial Times á fimmtudaginn sagði Jean-Dominique Comolli, framkvæmdastjóri tóbaksfyrirtækisins Altadis, að hann "vissi um mikið af fólki sem hygðist fara burt ef hún sigraði í kosningunum. Hún líktist áður Tony Blair, en hefur núna algjörlega verið gleypt af sósíalistunum. Það er skömm að því."


Hvort Royal muni standa við orð sín er hins vegar annað mál. "Hún mun aldrei koma helmingnum af þeim hlutum sem hún hefur boðað í framkvæmd," segir Jean-Pierre Mustier, yfirmaður fjárfestingarsviðs Société Générale bankans.

Kosningar vinnast oftar en ekki með því að höfða til kjósenda sem staðsetja sig á miðju hins pólitíska litrófs, og stjórnmálaskýrendur telja að þetta muni einnig eiga við í forsetakosningunum í Frakklandi á komandi vori. Með hundrað hugmyndum sínum um hvernig verja megi hina "frönsku þjóðfélagsgerð" og þeirri róttæku efnahagsstefnu sem hún hefur boðað, var Royal að bregðast við gagnrýni um að allt innihald hefði vantaði í kosningabaráttu hennar hingað til. Hættan er hins vegar sú að mati margra stjórnmálaskýrenda að hún hafi stigið of langt til vinstri í tilraun sinni til að afla sér stuðnings hörðustu vinstri manna innan Sósíalistaflokksins. Til að ná kjöri sem forseti þarf Royal að gangast undir tvennar kosningar. Enda þótt flest bendi til að hún muni auðveldlega komast gegnum fyrstu umferð - líklega ásamt Sarkozy - þá gæti henni reynst erfitt að ná fylgi helmings kjósenda með núverandi áherslur í efnahagsmálum að leiðarljósi.