Birgir Örn Birgisson, fráfarandi forstjóri Domino's á Íslandi, gerir hátt hlutfall launa af tekjum í veitingageiranum á Íslandi að viðfangsefni í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag . Hann óttast að sligandi launakostnaður orsaki það að fleiri rekstraraðilar kjósi að greiða laun undir borðið. Þetta sé vegna uppbyggingar kjarasamninga þar sem yfirvinnutaxtar leggist einfaldlega of þungt á veitingageirann.

Þá gagnrýnir Birgir þær launahækkanir sem síðustu kjarasamningar höfðu í för með sér þar sem engin innistæða hafi verið fyrir þeim. Vísar Birgir til skýrslu KPMG þar sem segir að hlutfall launa af tekjum íslenskra veitingafyrirtækja sé vel yfir 40 prósent, meðan í samanburðarlöndunum í skýrslunni sé hlutfallið jafnan á milli 25% og 33%.

Líkt og fyrr segir kemur Birgir inn á það að sligandi launakostnaður muni verða til þess að fleiri veitingafyrirtæki ákveði að greiða laun svart, eða koma sér undan því að standa í skilum á opinberum gjöldum með öðrum hætti.

„Við erum að sjá dæmi þess að furðulegir hlutir eru að gerast í geiranum. Eitt fyrirtæki í veitingarekstri, sem treystir meðal annars á nætursölu, birti ársreikning nýlega þar sem launahlutfall var 12 prósent af veltu, langt undir þeim rúmlega 40 prósentum sem eru almennt í geiranum,“ segir Birgir við Fréttablaðið.

Verður ekki betur séð en umrætt fyrirtæki sem Birgir vísar til sé veitingastaðurinn Mandi. Samkvæmt nýjasta ársreikningi HALAL ehf., rekstraraðila Mandi, fyrir árið 2019 námu tekjur veitingastaðarins 419,5 milljónum króna á árinu, meðan laun og launatengd gjöld námu 53,6 milljónum króna. Var launahlutfall veitingastaðarins það árið því ríflega 12%.

„Þegar rekstraraðili veitingahúss birtir ársreikning með 12 prósenta launahlutfall, þýðir það annað hvort að viðkomandi er margfalt betri í rekstri en allir samkeppnisaðilar og geirinn í heild sinni. Eða þá að þeir geta ekki sýnt hærra launahlutfall í reikningum vegna þess að stór hluti launa er greiddur undir borðið. Dæmi hver fyrir sig,“ segir Birgir jafnframt í samtali við Fréttablaðið.